Rauðar viðvaranir eru enn í gildi á austurhluta landsins og á miðhálendinu.
Klukkan 16 verða þær appelsínugular á Norðurlandi eystra, suðausturlandi og á miðhálendinu.
Klukkan 17 fellur viðvörun út á Austurlandi að Glettingi og klukkan 18 verða þær allar fallnar út utan Austfjarða, þar sem tekur gildi appelsínugul viðvörun til 20 þegar síðasta veðurviðvörunin á landinu fellur niður.
Kristín Hermannsdóttir, fagstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, segir allt saman búið í borginni en austurhelming landsins enn vera í töluverðu hvassviðri.
„Ef þú dregur línu frá Skagafirði og að Vík í Mýrdal þá er það svæðið þar fyrir austan þar sem ennþá er hvasst,“ segir Kristín.
Segir hún veðrið smám saman ganga austur af landinu og að versta veðrinu verði lokið klukkan 18. Þó verði áfram appelsínugul viðvörun til klukkan 20 á Austfjörðum.
Allar viðvaranir verða fallnar úr gildi á landinu klukkan 20.
Um veðrið fram undan segir Kristín að það kólni og að éljagangur verði á vestanverðu landinu í nótt. Þá verði víða einhver snjókoma eða slydda með köflum bæði austan og vestan til á landinu á morgun.
„Við erum ekki komin í neitt sumarástand en ég á ekki von á miklum snjó þó jörð muni líklega hvítna einhvers staðar,“ segir Kristín.