„Ég hefði orðað það öðruvísi“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni. mbl.is/Karítas

„Ég hefði orðað það öðruvísi, en við erum sannarlega á þeim stað að það eru mál sem við þurfum að ræða út frá nýju stjónarhorni og þar er flugvöllurinn meðal annars,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar, spurð hvort hún sé sammála borgarstjóra um að það hrikti í meirihlutanum.

Einar Þorsteinsson talaði tæpitungulaust um vandræði meirihlutans í Dagmálum um mismunandi afstöðu meirihlutans til flugvallarins.

„Afstaða Samfylkingar og Pírata, og að einhverju leyti Viðreisnar líka, hefur alveg verið skýr og þau vilja flugvöllinn burt. Við höfum ekki verið þar,“ sagði Einar.

Tillögur minnihluta sjalda samþykktar

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á fundi sínum á þriðjudag tillögu sjálfstæðismanna um að vinna breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 þannig að flugvallarstarfsemi og tengd atvinnustarfsemi í Vatnsmýri verði tryggð út skipulagstímabilið. Það heyrir til tíðinda í borgarstjórn að meirihlutinn samþykki tillögur frá minnihlutanum.

Í tillögunni kemur fram að samhliða verði gripið til aðgerða til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar en flugvallarsvæðið er stórt atvinnusvæði í borginni, hvar starfa mörg hundruð manns við flugstarfsemi og aðra afleidda starfsemi.

Ekkert nýtt að vera ekki alltaf sammála

Þórdís Lóa segir að það sé ekki nein stókostleg stefnubreyting í gangi. Að meirhlutanum standi fjórir ólíkir flokkar og það sé ekkert nýtt að þau séu ekki alltaf sammála.

„Afstaða Viðreisnar gagnvart flugvellinum er alveg skýr. Við sjáum hann ekki fyrir okkur til allrar framtíðar í Vatnsmýrinni en það þarf að tryggja rekstraröryggi hans á meðan annað flugvallarstæði finnst ekki. Á meðan verður flugvöllurinn áfram þarna og við þurfum að vinna með það.

Við gerðum meirihlutasamning 2022, áður en eldsumbrot hófust með jafn dramatískum hætti og nú hefur raungerst þannig að ég sé ekki fyrir mér að flugvöllur verði í Hvassahrauni eins og staðan er núna og því er kominn nýr umræðugrundvöllur um flugvöllinn.“

Vildu ekki tjá sig

Ekki náðist í Heiðu Björgu Hilmisdóttur, oddvita Samfylkingarinnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, eða Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, sem skipar annað sæti á eftir Einari Þorsteinssyni, til að fá viðbrögð þeirra við ummælum borgarstjóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert