„Ég segi margt og kannski meina ég ekkert með því. Ég er ekki einn um það.“ Þessi orð sem Sindri Snær Birgisson lét falla vill verjandi hans, Sveinn Andri Sveinsson, meina að sé hnotskurn hryðjuverkamálsins. Samskipti Sindra og Ísidórs Nathanssonar hafi einungis verið gáleysislegt og galgopalegt tal, ekki liður í undirbúningi hryðjuverka.
Aðalmeðferð málsins var haldið áfram í Landsrétti í morgun þrátt fyrir aftakaveður og voru aðstandendur sakborninganna meðal annars mættir í dómsal til þess að fylgjast með málflutningi Sveins Andra og Einars Odds Sigurðssonar, verjanda Ísidórs.
Málflutningur Önnu Barböru Sigurðardóttur saksóknara fór fram í gær.
Tæplega ár er liðið frá því að Sindri var sýknaður fyrir tilraun til hryðjuverka í Héraðsdómi Reykjavíkur og Ísidór þar af leiðandi sýknaður fyrir hlutdeild í broti Sindra. Þeir voru hins vegar dæmdir fyrir stórfellt vopnalagabrot, Sindri í 24 mánaða fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi.
Verjendur mannanna krefjast þess að þeir verði sýknaðir alfarið af hryðjuverkahluta ákærunnar og að þeir sýknaðir að hluta fyrir vopnalagabrotin. Þá er þess krafist að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar er lög leyfa er kemur að brotunum sem þeir hafa játað að hluta.
Málflutningur Sveins Andra og Einars Odds rímaði að miklu leyti við fyrri málflutning þeirra í héraði. Umfjöllun um þá má lesa hér að neðan.
Einar Oddur sagði sakarefnið líklega það alvarlegasta í íslenskri réttarsögu. Umfang málsins væri mjög mikið og sjaldan hafi verið lögð jafn mikil vinna í rannsókn nokkurs máls.
Þeir fjölluðu báðir um þessar aðgerðir og rannsókn lögreglu sem þeir sögðu hafa litast af rörsýn, fyrir fram ákveðnum hugmyndum, rangtúlkunum og vafasömum rannsóknaraðferðum.
Sveinn Andri gagnrýndi orðalag í hinum áfrýjaða dómi þar sem sagði að „viðurstyggileg ummæli“ beggja ákærðu og athafnir þeirra „gáfu að mati dómsins fullt tilefni til aðgerða lögreglu í málinu er ákærðu voru handteknir“.
Mennirnir voru handteknir 21. september árið 2022, degi eftir að heimild til ákveðinna þvingunarúrræða var gefin út.
Í máli Karls Steinars Valssonar yfirlögregluþjóns fyrir héraðsdómi kom fram að handtakan hafi fyrst og fremst verið vegna rannsóknarhagsmuna, þar sem Ísidór hafði fengið upplýsingar um eftirlit lögreglu með þeim.
Á blaðamannafundi lögreglu daginn eftir kom síðan fram að komið hefði verið í veg fyrir hryðjuverk.
Einar Oddur sagði því ljóst að ekki hafi verið yfirvofandi hætta, heldur hafi rannsóknarhagsmunir verið í fyrirrúmi.
Verjendurnir sögðu báðir að rannsókn lögreglu hafi síðan miðað að fyrir fram ákveðnum kenningum og oftúlkunum um að félagarnir væru hættulegir hryðjuverkamenn. Grundvallarsjónarmiði um hlutlægni hafi verið „kastað út um gluggann“.
Sveinn Andri minntist á að talað hafi verið um að samskipti tvímenninganna hafi verið á dulkóðuðu forriti, Signal.
Stillingar samtala þeirra hafi hins vegar verið á þá leið að þau voru galopin, svipað og á Messenger. Ekkert sérstakt lykilorð hafi þurft inn í forritið og þeir hafi ekki verið með samskiptin þannig stillt að þeim yrði eytt, jafnvel þó forritið bjóði upp á það.
Sveinn Andri sagði dómstóla hafa verið mataða af rangfærslum þegar gerðar voru kröfur um gæsluvarðhald, en mennirnir voru látnir lausir 13. desember 2022 eftir að Landsréttur féllst ekki á að hættu- og varnarsjónarmið væru lengur fyrir hendi.
Einar Oddur sagði meðferð dómstóla á kröfum um gæsluvarðhald áhugaverða og gefa innsýn í hvernig sakarefnið var metið.
Í kjölfar þess að Sindra og Ísidór var sleppt hækkaði Ríkislögreglustjóri viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar og er það enn óbreytt.
Líkt og í málflutningi saksóknara var mikið fjallað um ásetning mannanna í ræðum Sveins Andra og Einars Odds. 20. gr. almennra hegningarlaga er þar miðpunktur og ótvírætt lykilorð. Þar segir:
Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.
Lítið hefur reynt á þetta tilraunaákvæði laganna fyrir íslenskum rétti og sagði Sveinn Andri það vera „hausverk“ Landsréttar að fjalla um þetta ákvæði og hvort orðið ótvírætt hafi áhrif á mat dómsins.
Að hans mati þýðir þetta orðalag að herta kröfu um sönnun ásetnings.
Báðir verjendur nefndu svokallaðan Akranesbrennudóm frá 1948 þar sem menn voru sýknaðir fyrir að hafa talað um að brenna hús. Í þeim dómi kom fram að hugsanir og vangaveltur séu ekki refsiverðar.
Sveinn Andri sagði að í nútímasamfélagi væri netgrúsk og svokallað gúgl framlenging á hugsun manna. Hann lýsti því að fólk væri farið að hugsa spontant á netinu.
Verjandinn sagði milljónir manna skoða efni líkt og Sindri og Ísidór skoðuðu um fjöldamorð og öfgahyggju. Fólk hefði einfaldlega áhuga á mannlegri hegðun.
Þeir hafi ekki tileinkað sér efnið og nefndi sem dæmi að þó að hann myndi kynna sér mormónatrú og lífstíl grænkera þá þýddi það ekki að hann væri mormóni eða grænkeri.
Einar Oddur sagði Ísidór hafa verið sem opna bók í gegnum málið. Hann hafi viðurkennt að hafa sankað að sér efni, kynnt sumt sér en ekki tileinkað sér.
Ísidór hefði engu dregið undan um að hafa aðhyllst ákveðnar pólitískar skoðanir sem ekki allir væru sammála, en að hann hafi ekki sýnt sérstaka ákefð til að hafa áhrif á Sindra.
Sveinn Andri sagði enga af 64 ákæruliðum ákærunnar á hendur Sindra geta túlkast sem undirbúningsathöfn til hryðjuverka. Því samsinnti Einar Oddur og sagði töluvert meira til þess að sakfella mennina.
Sveinn Andri nefndi þó að mögulega gæti liður 52, þar sem segir að Sindri hafði farið á vettvang hinsegin daga og mælt bil á milli lokana með það fyrir augum að kanna hvort unnt sé að aka stóru ökutæki þar í gegn, talist sem undirbúningsathöfn. Ákæruvaldið hefur hins vegar fallið frá þeim lið.
„Fer aldrei af fasa hugsana og samtals yfir í einhverjar athafnir,“ sagði Sveinn Andri í ræðu sinni.
Þá nefndi hann að Sindri hefði aldrei aflað sér hráefnis eða búnaðar í sprengjugerð eða drónagerð. Það eina sem hann hefði keypt sér var lélegt kínverskt vesti.
Báðir verjendur sögðu sakborningana hafa þrívíddaprentað skotvopn í tekjuskyni. Tilgátur ákæruvaldsins um að það hafi verið til þess að fjármagna hryðjuverk væru ekki á rökum reistar.
Það er ekki hægt að selja kökuna og borða hana á sama tíma, sagði Sveinn Andri.
Þá sagði hann að ef Sindra hefði vantað fjármagn til þess að framkvæma hryðjuverk þá hefði hann væntanlega tekið lán á íbúð sína eða selt hana.
Einar Oddur og Sveinn Andri gagnrýndu að samskipti mannanna hafi verið klippt til af lögreglu og tekin úr samhengi.
Sveinn Andri lýsti samskiptunum sem kaldhæðnum, innantómum, galgopalausum og að um væri að ræða innihaldslaust hjal. Engum ummælum hefði fylgt athöfn.
Einar Oddur sagði að um hugrennirnar væri að ræða og fantasíur sem birtust í bland við augljóslega kaldhæðni.
Sveinn Andri sagði það rétt hjá ákæruvaldinu að það verði að setja ummælin í samhengi og skoða heildarmyndina. Það væri kjarni málsins, en að ákæruvaldið fylgdi því ekki eftir.
Einar Oddur samsinnti því og sagði að mennirnir hefðu vaðið úr einu í annað og því einungis um gáleysislegt tal að ræða.
Sveinn Andri nefndi skilaboð sem Ísidór sendi þar sem hann grínaðist með að kæfa ömmu sína og skilja hana inni á flugvallaklósetti. Talið hafi varið stutt og farið fljótt í annað tal.
Hann sagði að það þyrfti að huga að því að stundum væri augljóslega um grín að ræða. Þegar einhver segði „djók“ þá tæki það allan brodd og alvöru úr samtalinu.
Einar Oddur sagði að um væri að ræða tvo unga menn á tveggja manna tali sem ættu aldrei að koma fyrir augu þriðja manns. Ótækt væri að leggja til bókstafstúlkun á því sem þeir sögðu miðað við framburði þeirra, vitna og mat geðlæknis.
Báðir verjendur krefjast þess að málsvarnarlaun þeirra verði endurskoðuð.
Héraðsdómur dæmdi að ákærðu greiddu fjórðung launa verjanda sinna sem samtals voru 22 milljónir. Þrír fjórðu hlutar kostnaðarins greiddust úr ríkissjóði.
Sveinn Andri og Einar Oddur sögðu að 95% af vinnu þeirra hafi farið í hryðjuverkahluta málsins. Því skuli ríkissjóður greiða reikninginn að langmestu vegna sýknudómsins.
Þá sagði Sveinn Andri að tímaskýrslan hafi verið skrúfuð niður og telur hann sig einungis hafa fengið greidda um 60% af vinnunni.
„Fór fjandi mikill tími í þessa vinnu hjá báðum verjendum,“ sagði hann og fór yfir umfang málsins.