Ólafur E. Jóhannsson
„Í ljósi þess að Jón Gnarr hlaut skilorðsbundinn dóm samkvæmt framansögðu er að mati nefndarinnar ekki tilefni til þess að bregðast frekar við ábendingu um kjörgengi hans.“
Svo segir í greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kosninga til Alþingis sem Dagur B. Eggertsson alþingismaður veitir forstöðu og kynnt var á Alþingi á þriðjudag. Þar var fjallað um greinargerð landskjörstjórnar um niðurstöður síðustu alþingiskosninga og skorið úr um kjörgengi nýkjörinna þingmanna.
Í greinargerðinni kemur fram að Alþingi hafi borist ábending frá nafngreindum einstaklingi, en í erindi hans kom fram að hann hefði áhyggjur af því að Jón Gnarr væri ekki með óflekkað mannorð, þar sem hann hafði fengið skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 1999.
Í kosningunum var hann kjörinn 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.
Í kosningalögum segir m.a. að hver sá sé kjörgengur til Alþingis sem hafi kosningarétt og hafi óflekkað mannorð. Í sömu lögum segir einnig að Alþingi úrskurði um gildi alþingiskosninga, kjörgengi þingmanna og kosningu þeirra að eigin frumkvæði eða á grundvelli framkominnar kæru.
Í greinargerðinni kemur fram að samkvæmt dómi héraðsdóms 21. maí 1999 hafi Jón Gunnar Kristinsson, nú Jón Gnarr, ásamt tveimur öðrum einstaklingum, verið fundinn sekur um röskun á fundarfriði Alþingis. Var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í eitt ár frá birtingu dómsins, en refsingin látin niður falla að þeim tíma liðnum, héldi hver hinna ákærðu almennt skilorð.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag