Kópavogur þarf ekki að greiða 1,4 milljarða í bætur

Vatnsendahverfi í Kópavogi.
Vatnsendahverfi í Kópavogi. Ljósmynd/Kópavogsbær

Landsréttur staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms í hinu svonefnda Vatnsendamáli að hluta til, en hnekkti dómi hans er varðaði fjárkröfu sækjenda á hendur Kópavogsbæ, sem og kröfu þeirra um viðurkenningu á skyldu til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra árlegra leigutekna.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í málinu í júlí árið 2023, og komst þá að þeirri niðurstöðu að bænum bæri að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, syni Þor­steins Hjaltested heit­ins, 1,4 millj­arða ásamt vöxt­um í frek­ari eign­ar­náms­bæt­ur vegna eign­ar­náms bæj­ar­ins á landi úr Vatns­enda árið 2007. 

Landsréttur staðfesti jafnframt dóm héraðsdóms um eftirfarandi kröfur, sem voru óumdeildar í málinu um að Kópavogsbæ bæri skylda til að skipuleggja byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýlis, að skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 134, að skipuleggja tvær lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 241a.

Þá var staðfest að Kópavogsbær ætti að veita Magnúsi Pétri Hjaltested einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé innan Lækjarbotnalands frá Fossvallarétt og ofan hennar og greiða kostnað við stofnun lóða í heimalandi Vatnsendabýlis, á Vatnsendabletti 134 og á Vatnsendabletti 241 og við þinglýsingu leigusamninga vegna sömu lóða.

Málskostnaður fyrir héraði og Landsrétti var látinn falla niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert