Mikið tjón varð á Stöðvarfirði í veðurofsanum í gærkvöldi, nótt og í morgun.
Þakplötur losnuðu á þökum fjölda húsa og tjón varð á smábátahöfninni. Sjá má hluta af þeim skemmdum sem urðu í veðrinu á meðfylgjandi myndum.
Íbúar á Skólabraut 12 hafa haft í nægu að snúast þar sem mikið tjón varð á þaki hússins sem í vatnsveðrinu orsakaði töluverðan leka.
Landgangur á smábátahöfninni gaf sig núna skömmu fyrir hádegi og svokallaður fingur sem bátarnir liggja við brotnaði þegar bátur kastaðist upp á hann í einni hviðunni.
Í morgun stóð vindurinn beint inn fjörðinn og þvert á hann. Grjót og alls kyns drasl fauk þá bæði á hús og bíla.
Þakplötur hafa fokið af húsum og meðal annars hvarf þak í heilu lagi af bílskúr. Rúður hafa einnig brotnað í stórum stíl, bæði í húsum og bílum. Mörg tré eru farin einnig.
Mikill vatnselgur fylgdi óveðrinu og ummerki um það mátti sjá víða um bæinn. Úrkoman var talsverð og þá gerði asahláku.