Rafmagnsleysi á Mýrum: „Mikið óöryggi fyrir alla“

Rafmagnsstaur gaf eftir nærri Ölvaldsstöðum á Mýrum.
Rafmagnsstaur gaf eftir nærri Ölvaldsstöðum á Mýrum. Ljósmynd/RARIK

Rafmagnsleysi hefur verið á Mýrum í Borgarfirði frá því klukkan 18 í gærkvöld og að því er fram kemur á vef Rarik er unnið að því að finna bilunina.

„Það er ennþá rafmagnslaust og allar Mýrarnar eru búnar að vera án rafmagns frá því rúmlega sex í gær,“ segir Jón Baldur Lorange, sem er í sumarbústað í Vörðuhálsi við Langá á Mýrunum, um átta kílómetrum frá Borgarnesi.

Í tilkynningu frá Rarik sem barst á ellefta tímanum segir:

„Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 í gær. Einhverjir viðskiptavinir eru komnir aftur með rafmagn en enn er stór hluti svæðisins án rafmagns. Á þessu svæði hafa fundist nokkrar bilanir sem þegar er búið að gera við en því miður eru fleiri bilanir á línunni og bilanaleit og viðgerðir standa enn yfir.“

Jón Baldur segir að það hafi komið tilkynning í gær um rafmagnsleysi og leit að bilun gæti ekki hafist fyrr en um miðnætti og svo hafi komið önnur tilkynning í morgun um að hafin væri leit að bilun.

Starfsmenn RARIK á ferð í Álftafirði, austan Stykkishólms. Unnið er …
Starfsmenn RARIK á ferð í Álftafirði, austan Stykkishólms. Unnið er í kappi við klukkuna til að ljúka því sem hægt er að ljúka áður en snúa þarf til baka vegna veðurs. Ljósmynd/RARIK

Viðvarandi ástand

„Þeir hafa greinilega ekki komist í þetta í nótt en nú er að skella á annað óveður svo maður veit ekki hvenær rafmagnið kemst aftur á,“ segir Jón Baldur.

Hann segir að þetta sé viðvarandi ástand á Mýrunum og greinilegt sé á öllu að rafmagnslínan sé alveg úr sér gengin.

„Við sendum póst í fyrra og þá var okkur tjáð að viðhaldáætlun væri í gangi um að koma línum ofan í jörð. Það væri gaman að vita hvernig það gangi en miðað við þetta þá gengur það ekkert. Þetta er mikið óöryggi fyrir alla því hér er ekki heitt vatn og þarf að hita það með rafmagni,“ segir Jón Baldur.

Í tilkynningu Rarik segir að tala megi um sex megintruflanir, en þær eru eftirfarandi:

  • Helgafellssveit – Rafmagnstruflanir hófust á þessu svæði kl. 14 í gær en tókst að koma rafmagni á aftur stuttu síðar. Rafmagnið fór aftur af kl. 23 í gærkvöldi og tókst að koma því á aftur að hluta. Kolgrafarfjörður er enn rafmagnslaus. Framkvæmdaflokkur er nú á leið þangað til að meta stöðuna og hefja viðgerð.
  • Skógarströnd/Álftafjörður – Rafmagn fór af á Skógarströnd og í Álftafirði kl. 16:08. Rafmagn komst aftur á Skógarströnd nokkrum tímum síðar en bilunin fannst í Álftafirði. Þar var rafmagnslaust en viðgerð var að ljúka nú kl. 10:35.
  • Mýrar – Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 í gær. Einhverjir viðskiptavinir eru komnir aftur með rafmagn en enn er stór hluti svæðisins án rafmagns. Á þessu svæði hafa fundist nokkrar bilanir sem þegar er búið að gera við en því miður eru fleiri bilanir á línunni og bilanaleit og viðgerðir standa enn yfir.
  • Landbrot – Rafmagnslaust varð í Landbroti í gærkvöldi kl. 18:42 og tókst að koma rafmagni þar á aftur í nótt kl. 01:30. Skemmdir eru á línunni og ljóst að þar þarf að fara fram viðgerð þótt rafmagn hafi haldist inni.
  • Selvogur – Rafmagnslaust varð kl. 19:11 í gærkvöldi og tókst að koma rafmagni þar á kl. 00:30.
  • Stíflisdalur í Kjós – Rafmagnslaust var í Stíflisdal frá kl. 18:55. Framkvæmdaflokkur komst þangað fyrir skömmu og rafmagn komst aftur á núna kl. 10:20.

Þá er jafnframt tekið fram að um kl. 10 í morgun hafi rafmagn farið af í Vestur-Landeyjum. Bilanaleit mun fara fram um leið og framkvæmdaflokkur kemst á svæðið. Núna um kl. 10:45 þarf svo að taka rafmagn af línunni frá Brattsholti að Keldnaholti þar sem þar liggur lína á veginum.

Rafmagnsleysi hefur verið á Mýrum í Borgarfirði frá því klukkan …
Rafmagnsleysi hefur verið á Mýrum í Borgarfirði frá því klukkan 18 í gærkvöld. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert