Talsverð umræða hefur sprottið upp undanfarnar vikur yfir framgöngu helstu forvígismanna Flokks fólksins.
Í síðasta þætti Spursmála spannst talsverð umræða um einmitt þetta og þar fullyrti Kristín Gunnarsdóttir, hönnuður og annar tveggja stjórnenda hlaðvarpsins Komið gott, að samstarf Samfylkingar og Viðreisnar við Flokk fólksins minnti helst á langdregna busavígslu.
„Kannski var ekki tilefni til að hlæja að þessu öllu saman. En við höfum í rauninni bara merkt Flokk Fólksins sem La Familia Sæland og tölum um hann sem slíkan hér eftir og það er í raun bara ótrúlegt að þessi glænýja ríkisstjórn og Viðreisn og Samfylking þurfi bara að taka þátt í þessari busavígslu svona á fyrstu dögum, þeim er eiginlega bara vorkunn, verð ég að segja.“
Er verið að tollera ríkisstjórnina?
„Já og það er ekki verið að grípa heldur,“ svarar Kristín kímin.
Þórður Gunnarsson, bróðir Kristínar, segir líklegt að það séu tvær grímur eða fleiri farnar að renna á samstarfsflokkana vegna framgöngu forystumanna Flokks fólksins.
Stjórnendur Komið gott, þær Kristín og Ólöf Skaftadóttir hafa beðið þjóðina afsökunar vegna þess hversu mjög þeir trommuðu Ingu Sæland og Flokk fólksins upp í aðdraganda síðustu kosninga. Segir Þórður að margir hafi gerst sekir um að hafa trommað flokkinn upp og ekki áttað sig á að innan tíðar gæti hann verið kominn í þá valdastöðu sem nú blasir við.
Viðtalið við Kristínu og Þórð Gunnarsbörn má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: