Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands um fyrirkomulag upplýsingagjafar um málefni sem snerta forsetann, þ.á.m. um dagskrá forseta.
Í gær greindi RÚV frá því að skrifstofa forseta hefði veitt óskýr svör við fyrirspurn þeirra um hvar Halla Tómasdóttir forseti Íslands var þegar minningarathöfn um helförina í Auschwitz fór fram.
Hvorki Halla né forsætisráðherra Íslands, Kristrún Frostadóttir, sóttu athöfnina en 80 ár eru liðin frá frelsun þeirra sem var haldið í útrýmingarbúðunum. Utanríkisráðherrann Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var fulltrúi íslenskra stjórnvalda við athöfnina.
Sagði í frétt RÚV að fram hefði komið í tölvupóstsamskiptum utanríkisráðuneytisins við Unu Sighvatsdóttur, sérstakan ráðgjafa forseta, að athöfnin myndi stangast á við einkaferð forsetahjónanna í janúar.
Í svari forsetaskrifstofunnar við fyrirspurn RÚV um fjarveru forsetans hafi aftur á móti einungis sagt að ekki hefði verið hægt að koma minningarathöfninni heim og saman við dagskrá forsetans.
Hafnaði skrifstofa forseta einnig að afhenda dagskrá forseta í janúar til fréttastofu RÚV.
Á vefsíðu umboðsmanns Alþingis segir að hann hafi óskað eftir upplýsingunum vegna fréttar í liðinni viku þar sem fram hafi komið að skrifstofa forseta Íslands hefði hafnað beiðni um að afhenda dagskrá forsetans.
Á því hafi verið byggt að ekki væri hægt að greina frá fyrirhuguðum ferðum því það væri oft gestgjafans að tilkynna um slíkt auk þess sem fleiri sjónarmið gætu komið þar við sögu, svo sem öryggissjónarmið.
Umboðsmaður óski engu að síður eftir frekari upplýsingum um hvaða sjónarmið hafi legið til grundvallar þeirrar synjunar, sérstaklega í ljósi þess að ekki var beðið um dagskrána fyrir fram heldur eftir á.