Andlát: Hallgrímur B. Geirsson

Hallgrímur B. Geirs­son, fyrrverandi framkvæmdastjóri Árvakurs hf., lést á líknardeild Landspítalans miðvikudaginn 5. febrúar, 75 ára að aldri.

Hallgrímur fæddist 13. júlí 1949 í Boston í Bandaríkjunum, sonur hjónanna Geirs Hallgrímssonar fyrrverandi forsætisráðherra og Ernu Finnsdóttur húsmóður.

Hallgrímur lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og lögfræðiprófi frá HÍ 1975. Hann varð héraðsdómslögmaður 1977 og hæstaréttarlögmaður 1985.

Hann vann við lögfræðistörf hjá Eyjólfi Konráð Jónssyni og Hirti Torfasyni og fleirum frá 1975 til 1978. Hann rak lögmannsstofu ásamt Gesti Jónssyni, Kristni Björnssyni og síðar Ragnari Halldóri Hall og fleirum frá 1978 til 1995 þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins. Því starfi gegndi hann til ársins 2006 en frá þeim tíma vann hann við ýmis lögmannsstörf. Í framkvæmdastjóratíð sinni hjá Árvakri beitti Hallgrímur sér meðal annars fyrir því að fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, var hleypt af stokkunum árið 1998.

Hallgrímur var forseti málfundafélagsins Framtíðarinnar í MR 1967-1968, sat í stjórn Vöku 1970, í stjórn Heimdallar 1972-1973 og í stjórn Stúdentaráðs HÍ á sama tíma.

Hallgrímur sat í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka. Hann átti sæti í stjórn H. Benediktssonar hf., Nóa-Síríusar hf., Ræsis hf. og Sjóvár-Almennra hf. og var formaður stjórnar Árvakurs hf. 1987-1995. Hallgrímur sat í stjórn Lögmannafélags Íslands 1983-1985 og í kjaranefnd félagsins 1985-1987. Þá átti hann sæti í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands 1988-1989. Hann var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1987 til dauðadags.

Eftirlifandi eiginkona Hallgríms er Aðalbjörg Jakobsdóttir, BA, fyrrverandi skrifstofustjóri í Menntaskólanum í Reykjavík. Dóttir þeirra er Erna Sigríður lögfræðingur. Eiginmaður hennar er Filippo Mattia Sanzone og sonur þeirra Róbert Hallgrímur.

Að leiðarlokum þakkar Árvakur Hallgrími fyrir störf hans við fyrirtækið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert