Hinsegin fólk upplifir líkamlega og andlega heilsu sína verri en þeir sem ekki eru hinsegin og eru líklegri til að hafa upplifað andlega örðugleika og líklegri til að hafa orðið fyrir ofbeldi.
Þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan hinsegin fólks, sem kynntar voru í Ráðhúsinu í dag.
Verða niðurstöður nýttar í mótun aðgerða sem styðja við lýðheilsu hinsegin fólks. Forvarnir og aukinn stuðningur eru þar lykilatriði ásamt fræðslu um hinsegin málefni innan heilbrigðiskerfisins.
Hinsegin fólk kom verr út úr flestum lykilþáttum er kannaðir voru í rannsókninni.
Niðurstöður sýna að upplifun þeirra á líkamlegri og andlegri heilsu er verri en þeirra sem ekki eru hinsegin og að hinsegin fólk er líklegra til að hafa upplifað síþreytu, kvíða, streitu, áfallastreituröskun og þunglyndi, og líklegra til að hafa orðið fyrir ofbeldi, andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu.
Ljóst er því að úrbóta er þörf og benda rannsakendur á að til að bæta heilsufar hinsegin fólks þurfi að taka á félagslegum þáttum sem hafa áhrif á heilsu. Líkt og fjárhagsstöðu, félagslegum stuðning og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Að koma í veg fyrir ofbeldi gegn hinsegin einstaklingum er forgangsatriði í rannsókninni og er kallað eftir öflugum kerfisbundnum og samfélagslegum aðgerðum, bæði til að draga úr ofbeldi og til að styðja við þolendur þess.
Rannsakendur leggja fram tillögur sem stuðlað gætu að betrumbættu aðgengi hinsegin fólks að nauðsynlegum úrræðum.
Lögð er áhersla á stuðning við geðheilbrigði, þar með talið með auknu aðgengi að úrræðum, meðferðarúrræði eigi að vera á viðráðanlegu verði og móttækileg gagnvart sérkennum hinsegin samfélagsins. Áfallamiðuð nálgun og jafningjastuðningur koma einnig fram í tillögum.
Líkamleg heilsa er einnig lykilatriði og kalla rannsakendur eftir að jafnt aðgengi sé tryggt að heilbrigðisþjónustu. Til að mynda þurfi að fræða heilbrigðisstéttir um málefni hinsegin fólks og tryggja að komið sé fram við það af virðingu og án fordóma.
Þá gætu heilsufræðsla, bæði fyrir hinsegin fólk og heilbrigðisstarfsfólk, og samfélagsverkefni dregið úr misræmi í líkamlegri heilsu.
Rannsóknin byggði á gögnum úr könnuninni Heilsa og líðan sem Embætti Landlæknis framkvæmir á fimm ára fresti og var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Samtakanna ´78 - Félags hinsegin fólks á Íslandi.
Hún er ekki sú fyrsta sem nýtir gögn úr könnun landlæknis til að skoða heilsu hinsegin fólks en markar að sögn rannsakenda stórt skref fram á við í að dýpka skilning á stöðu heilsufars hjá hinsegin samfélaginu.
Flóra Vuong Nu Dong vann rannsóknina sem meistaranemi í líftölfræði, en er núna útskrifuð.
Þá voru Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, og Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála á skrifstofu borgarstjóra, umsjónaraðilar.