Borað eftir heitu vatni á Laugarvatni

Þörf fyrir meira heitt vatn hefur aukist jafnt og þétt …
Þörf fyrir meira heitt vatn hefur aukist jafnt og þétt í byggðarlaginu m.a. vegna fjölgunar íbúa og stækkunar heilsulindarinnar Fontana. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist á næstu dögum við borun vinnsluholu eftir heitu vatni á Laugarvatni. Aukin eftirspurn er eftir heitu vatni í byggðarlaginu, bæði vegna fjölgunar íbúa og einnig vegna stækkunar baðstaðarins Fontana á Laugarvatni. Gera menn sér góðar vonir um að finna megi nægilegt heitt vatn til að mæta aukinni þörf notenda og auka um leið rekstraröryggi Bláskógaveitu, hitaveitu Bláskógabyggðar.

Gert hefur verið ráð fyrir að borað verði að hámarki niður á um 400-500 metra dýpi og holan verði síðan fóðruð niður á 100-120 metra dýpi. Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar, segir menn þó gera sér vonir um að ekki þurfi að bora svo djúpt en það eigi eftir að koma í ljós.

ÍSOR hefur unnið að rannsóknum á síðustu árum á útbreiðslu jarðhita í kringum byggðarkjarnann við Laugarvatn og boraðar hafa verið tilraunaholur við leit að heitu vatni. Varð niðurstaðan sú að álitlegast væri að bora vinnsluholu innan byggðarkjarnans, þétt upp við bílaplan Menntaskólans á Laugarvatni þar sem mælingar benda til að sé mesta hitauppstreymið. Kristófer segir að fyrirhuguð borun á þessum stað sé í góðu samráði við húsráðendur menntaskólans og eigi ekki að vera vandkvæðum bundin.

„Það voru boraðar tilraunaholur á síðasta ári sem gáfu góðan árangur og sú sem gaf besta raun er á hlaðinu við menntaskólann. Við erum bjartsýn á þetta miðað við mælingar og árangur úr þessum tilraunaborunum,“ segir hann.

Nánar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert