Upp hafa komið tilvik þar sem ekki fást svæfingarlæknar frá Landspítala til að fylgja sjúklingum í sjúkraflug til útlanda. LSH segir sjúkraflutninga hafa færst í aukana síðasta árið í takt við aukið framboð á sérhæfðri læknisþjónustu sem Íslendingum stendur til boða erlendis.
Fyrirkomulagið í erlendu sjúkraflugi hefur þótt laust í reipunum og beðið er eftir því að sjúkratryggingar semji við flugrekstraraðila þannig að málið komist í fastar skorður.
Síðasta slíka tilvikið kom upp í þarsíðustu viku. Snerist það um sjúkling sem haldið var sofandi í öndunarvél. Flytja þurfti hann daginn eftir til Svíþjóðar í aðgerð. Ekki fékkst svæfingarlæknir í verkefnið og úr varð að teymi sem innihélt svæfingarlækni kom frá Svíþjóð og sótti sjúklinginn.
Nokkrum dögum síðar átti að sækja sjúklinginn aftur en ekki var talið óhætt að fljúga til landsins vegna veðurs. Ekki var læknir tiltækur þegar flugfært var til landsins og því aftur leitað til sænska teymisins til að flytja manninn til landsins með samþykki sjúkratrygginga en ærnum tilkostnaði.
Taka ber fram að mbl.is er ekki kunnugt um að þjónustuskerðing hafi orðið á þótt tilvik séu um að LSH hafi ekki tekist að manna sjúkraflug.
Í skriflegu svari frá Landspítala segir að sjúkraflutningar erlendis séu óreglulegir og ekki sérstök bakvakt til staðar fyrir þessa þjónustu.
„Svæfingalæknar á Landspítala hafa því í gegnum árin hlaupið til í frítíma sínum, um kvöld, um helgar og nætur og sinnt þessari lífsnauðsynlegu læknisþjónustu.“
Eins segir að ekki hafi tekist að finna svæfingarlækni í undartekningatilfellum og að bæði hafi verið leitað til sjúkrahússins á Akureyri og nýlega til sérhæfðrar þjónustu í Svíþjóð og Noregi til að sinna þjónustunni. Erlendu flugvélarnar eru sérútbúnar fullmannaðar þotur sem sagðar eru henta mun betur í slík verkefni en sá flugkostur sem býðst á Íslandi.
Þórir Svavar Sigurmundsson, framkvæmdastjóri skurðlækningaþjónustu, skurðstofu og gjörgæsluþjónustu á Landspítala, segir að svæfingarlæknar sinni slíkum verkefnum í frítíma sínum og að greiðsla fyrir viðvikin hafi haldið í verðlagsþróun frá árinu 2009. Greiddur er yfirvinnutaxti í slíkum ferðum.
„Við erum ekki með neina bakvakt í þetta. Stundum er þetta samdægurs eða daginn eftir sem menn þurfa að stökkva til. Sjúkratryggingar hafa almennt séð um kostnað við flugið en við höfum svo borgað okkar læknum laun fyrir að fljúga í þessi verkefni.“
Verklag við flutningana hefur á stundum verið losaralegt og gjarnan brugðist við í hverju tilviki fyrir sig þegar þjónustunnar er þörf.
Til marks um óskipulag kom nýlega upp tilvik með svæfingalækni á sjúkrahúsinu á Akureyri sem sendi reikning fyrir verktöku á sjúkratryggingar en hann var ekki greiddur þar vegna ofangreinds fyrirkomulags. Deildar meiningar voru um þá upphæð sem greiða átti lækninum fyrir þjónustuna. Þórir segir málið hafa farið farveg og það leyst í góðri sátt.
Hann segir að skoða þurfi hvort koma eigi upp bakvakt fyrir þjónustuna og menn reyni í lengstu lög að neyða ekki lækna til þess að stökkva til þegar þeir eru í frítíma sínum.
„Á sama tíma og tilfellum hefur fjölgað nokkuð á tiltölulega skömmum tíma þá höfum við ekkert fleiri lækna til að sinna þessu og höfum raunar tímabundið verið færri en áður.“
Hann bendir á að fyrirkomulag um sjúkraflug erlendis sé í endurskoðun. Sjúkratryggingar eigi í samningaviðræðum um flutningana við flugrekstraraðila. Væntir hann þess að málin komist í fastari skorður þegar samningar eru í höfn.