Bandaríska strandgæslan hefur veitt björgunarsveitum í Alaska aðstoð við að leita að lítilli flugvél sem er saknað. Níu farþegar voru um borð í vélinni auk flugmanns.
Lögregluyfirvöld í Alaska segja að vélin, Cessna á vegum flugfélagsins Bering Air, hafi verið á flugi frá Unalakleet til Nome þegar hún týndist. 235 kílómetrar eru á milli byggðarlaganna.
Að sögn slökkviliðsins í Nome voru síðustu skilaboð flugmannsins til flugumferðarstjórnarinnar þau að hann myndi hringsóla yfir flugvellinum á meðan flugbrautin væri hreinsuð fyrir lendingu.
Hefur slökkviliðið engar frekari upplýsingar um staðsetningu vélarinnar en tekur fram í yfirlýsingu að björgunarsveitir leiti vélarinnar á jörðu niðri og að bandaríska strandgæslan hafi ræst út flugvél til aðstoðar við leitina.
Fréttaveitan AFP greinir frá því að síðasta merki vélarinnar á ratsjá hafi verið um 40 mínútum eftir flugtak og hafi hún þá verið yfir vatni.
Tvö flugslys hafa orðið í Bandaríkjunum á síðustu dögum og vikum.
Þann 30. janúar rákust farþegaþota og herþyrla saman í Washington með þeim afleiðingum að allir 67 um borð í vélunum fórust. Í kjölfarið létust sjö og nítján slösuðust þegar sjúkraflugvél hrapaði í Fíladelfíu.