Guðjón Helgi Guðmundsson, byggingarstjóri hjá Bestlu byggingarfélagi, segir félagið enn bíða staðfestingar borgarinnar á teikningum af fyrirhuguðum nýbyggingum við Nauthólsveg 79.
Áformað sé að reisa þar tvö minni bakhús og eitt stærra framhús, alls 62 íbúðir.
Fulltrúi Bestlu sagði við Morgunblaðið 22. október síðastliðinn að fyrirtækið áformaði að hefja jarðvinnu á Nauthólsvegi 79 eftir áramót. Áður hafði Morgunblaðið rætt við fulltrúa Bestlu í apríl síðastliðnum en þá stóð til að hefja jarðvinnu um haustið.
Með sama áframhaldi mun uppbyggingin því tefjast um a.m.k. hálft ár. Töluverð uppbygging er áformuð í nágrenninu, þ.m.t. á lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk við Loftleiðahúsið.