Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í borginni, segist treysta sér til að leiða borgina. Hún treysti þó einnig öðrum í verkið.
„Ég held að allir borgarfulltrúar myndu treysta sér til þess. Bara eins og þingmenn treysta sér til að vera forsætisráðherra. En aðalatriðið eru verkefnin,“ segir Heiða.
„Ég myndi treysta mér til þess með fólki sem væri þá tilbúið til að vinna af heilindum að þeim verkefnum. En ég myndi líka treysta mörgum öðrum til þess.“
Aðspurð kveðst hún búast við frekari samtölum og jafnvel fundum um helgina enda sé betra fyrir borgina að óvissutímabilið sé skemmra en ella. Það sé engu að síður mikilvægt að flýta sér ekki of mikið.
Spurð hvort henni myndi hugnast að mynda meirihluta með Sósíalistaflokknum, Vinstri grænum og jafnvel Viðreisn og Flokki fólksins segir Heiða Samfylkinguna í grunninn geta unnið með öllum svo lengi sem málefnin séu í forgrunni.
Svo þú útilokar ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn?
„Ég held að það sé svona síðasti kostur.“
Spurð um útspil Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í gærkvöld er hann sleit meirihlutasamstarfi Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í gær segir Heiða ákvörðun hans vissulega hafa komið sér á óvart.
„Þetta kom mér mjög á óvart, sérstaklega að hann hefði hafið aðrar viðræður áður en hann talaði við okkur,“ segir Heiða.
„Ég myndi ekki sjálf koma svona fram,“ bætir hún við en segir Einar að sjálfsögðu verða að svara fyrir eigin vinnubrögð.
Hún kannist ekki við að það hafi verið kominn upp einhver sérstakur ágreiningur í meirihlutanum enda geri maður ekki samstarfssáttmála nema að maður treysti sér til þess að standa við hann.
„Við treystum okkur fullkomlega til þess, en ef aðrir gera það ekki þá er það bara þannig.“