Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir einhug um það í ríkisstjórn að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni þar til betri kostur finnst.
„Það var rætt um það í samningaviðræðum þessarar ríkisstjórnar og það er einhugur um það að flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni þar til annar eða betri kostur finnst. Og sá annar eða betri kostur hefur ekki ennþá fundist,“ segir Kristrún.
Er það ekki alveg í samræmi við áætlanir samflokksfólks Kristrúnar í borginni, en um árabil hefur meirihlutinn, undir forystu Samfylkingarinnar, unnið eftir þeirri stefnu að flugvöllurinn skuli burt úr Vatnsmýrinni.
Sú umræða hélt áfram jafnvel eftir að eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga í næsta nágrenni við Hvassahraun, þar sem meirihlutinn hefur fram til þessa séð fyrir sér framtíðarheimili hans.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði það sama og Kristrún á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar á Hótel Reykjavík Natura á fimmtudag, að einhugur ríkti um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hann tók þó ekki fram, líkt og forsætisráðherra, að þannig yrði það þar til betri staðsetning fyndist.
Í vikunni studdu Einar Þorsteinsson borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar Framsóknar tillögu Sjálfstæðisflokksins varðandi áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri, og breytingu á aðalskipulagi þar að lútandi. Hingað til hafa tillögur Sjálfstæðisflokksins ekki fengið brautargengi á vettvangi borgarinnar.