Kröfu Náttúrugriða hafnað

Búrfellslundur Vindorkuverið Búrfellslundur sem verið hefur nokkuð umdeilt verður 120 …
Búrfellslundur Vindorkuverið Búrfellslundur sem verið hefur nokkuð umdeilt verður 120 MW að stærð og á að rísa við Vaðöldu í Rangárþingi ytra. Tölvumynd/Landsvirkjun

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála klofnaði í afstöðu sinni þegar meirihluti nefndarinnar hafnaði kröfu samtakanna Náttúrugriða um að ógilda þá ákvörðun Orkustofnunar að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar. Stóðu fjórir nefndarmenn að úrskurðinum, en einn vildi ógilda ákvörðun Orkustofnunar. Úrskurðurinn var birtur sl. fimmtudag.

120 MW vindorkuver

Ætla má að Búrfellslundur, sem verður 120 MW vindorkuver við Vaðöldu í Rangárþingi ytra, sé þar með kominn á beinu brautina. Orkustofnun veitti Landsvirkjun virkjunarleyfið í ágúst sl. en í september kærðu Náttúrugrið þá ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði úr gildi felld. Segir meirihluti úrskurðarnefndarinnar að ekki verði séð að neinir þeir annmarkar séu á ákvörðun Orkustofnunar sem raskað gætu niðurstöðunni.

Í málinu byggðu Náttúrugrið á því að verulegir form- og efnisannmarkar væru á umhverfismati framkvæmdarinnar, þ. á m. að ekkert valkostamat hefði farið fram, skort hefði á vísindalegt mat á stöðu óbyggðra víðerna og áhrifum framkvæmdarinnar á þau, ekki hefði verið vikið að vernd eldhrauna samkvæmt náttúruverndarlögum og að brotið hefði verið á þátttökurétti almennings.

Segir í úrskurðinum m.a. að úrskurðarnefndin hafi farið yfir umfjöllun í matsskýrslu framkvæmdarinnar og álit Skipulagsstofnunar, hvað aðra matsþætti snertir og telur nefndin ekki ástæðu til að gera athugasemd við umfjöllun skýrslunnar um þá. Ekki verði talið að matsskýrslan sé haldin slíkum annmörkum í umfjöllun um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar að hún verði álitin misvísandi þannig að á henni verði ekki byggt af hálfu leyfisveitanda. Hún hafi þvert á móti gefið nægilegar upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þannig að almenningi hafi verið mögulegt að gæta þátttökuréttar við ferli mats á umhverfisáhrifum.

Að meirihlutaáliti úrskurðarnefndarinnar stóðu Arnór Snæbjörnsson formaður nefndarinnar, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor skilaði séráliti og taldi að fella bæri virkjunarleyfi Landsvirkjunar úr gildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert