Kynfærakökufræðsla félagsmiðstöðvar ekki klám

Félagsmiðstöðin Bústaðir efndi til kynfærakökukeppi og kynfæra leir og kakó …
Félagsmiðstöðin Bústaðir efndi til kynfærakökukeppi og kynfæra leir og kakó í viku 6. Samsett mynd

Kynfærakökukeppni og kynfæraleir í félagsmiðstöðinni Bústaðir er hluti af viku6 þar sem þemað er líkaminn og kynfærin. Þemað var valið af unglingum borgarinnar.

Vika6 er sjötta vika hvers árs þar sem starfsfólk grunnskóla og félagsmiðstöðva borgarinnar er hvatt til að setja kynheilbrigði í forgrunn og bjóða upp á fjölbreytta kynfræðslu. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa borgarinnar, Hjördísi Rut Sigurjónsdóttur, við fyrirspurn sem blaðamaður sendi forstöðumanni Bústaða eftir að foreldri barns í Bústöðum furðaði sig á dagskrá félagsmiðstöðvarinnar í vikunni sem leið og kvaðst undrandi yfir framsetningu viðburðanna.

Spunnust þó nokkrar umræður í athugasemdaþræði við Facebook-færslu Gunnars Dan, foreldri barns í Bústöðum, og greindi Nútíminn fyrst frá umræðunum.

Ætti kannski bara að setja Útvarp Sögu á allar stöðvar

Hneyksluðu margir sig á framsetningunni sem og hlutverki félagsmiðstöðva í kynfræðslu á meðan aðrir sögðu hana mikilvægan lið í kynfræðslu til að koma í veg fyrir markaleysi og skömm sem oft fylgdi vanþekkingu og óöryggi í kynlífi.

Gunnar birti skjáskot úr auglýsingu á Instagram-síðu Bústaða og sagðist hreinlega ekki vita hvort hann ætti að vera með eða á móti því hvað allt væri orðið opið og gleitt og fagna fjölbreytileikanum og þakka félagsmiðstöðinni fyrir að taka að sér óumbeðið að fræða unglinginn hans um kynfæri.

„Kannski er ég bara orðin miðaldra og ætti bara að setja Útvarp Sögu á allar stöðvar, blóta öllu í sand og ösku og hlaupa svo út í garð og öskra á skýin. Ég hreinlega veit það ekki, ég veit ekki hvað mér á að finnast um þetta.“ 

„Fræðsla um líkama og kynfæri er ekki klám“

„Vika6 í ár snýst um málefni sem tengjast kynheilbrigði, líkamsímynd, kynþroska, staðalímyndum og ábyrgri kynhegðun, sem eru allt efni sem unglingar hafa lýst áhuga á að fá frekari fræðslu um,“ sagði í svari Hjördísar, sem segir fræðsluna í takt við hæfniviðmið aðalnámskrár.

Þá segir hún óhefðbundnar kennsluaðferðir á borð við föndur, bakstur og leir vera notaðar til að stuðla að opnum samtölum um líkama, kynfæri og kynþroska á afslappaðan og öruggan hátt.

Fræðslan miði að því að unglingar læri að allir líkamar séu einstakir og byggja upp jákvæða líkamsímynd og sjálfsmynd.

„Fræðsla um líkama og kynfæri er ekki klám. Fræðslan sem fer fram á Viku6 felur í sér upplýsta og ábyrga umræðu.“

Færslu Gunnars og athugasemdir má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert