Snapchat verst af þeim öllum

„Samstarfskona mín lýsti því þannig að með því að rétta …
„Samstarfskona mín lýsti því þannig að með því að rétta barni snjallsíma væri komið ígildi þess að henda því inn í herbergi með óteljandi dyr og þú veist ekkert hver kemur inn um þessar dyr eða hvert barnið getur farið,“ segir Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn.

„Það er sko ekkert til sem heitir dæmigert hjá okkur,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í dæmigerð mál í hans deild og ekki þarf að velkjast í vafa um að þar fylgi hugur máli. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn svarar þessari upphafsspurningu umhugsunarlaust og leggur þunga áherslu á orð sín.

Við ætlum að ræða um netglæpi innan vébanda þess brotaflokks sem kallast kynferðisbrot. Síðarnefndi flokkurinn er ævagamall – í raun jafn gamall mannkyninu. Hinn svo nýr að hann er hægt að telja í árum – með naumindum hægt að tala um áratugi. Afbrot með vettvang sinn í þeim ósýnilega rafræna heimi sem þó er orðinn svo snar þáttur hversdagsins – samskipta, viðskipta og tjáskipta – útheimta gríðarmikla vinnu löggæslustofnana, dóms-, heilbrigðis- og barnaverndarkerfis.

Vettvangur þessara brota verður ekki mældur í fermetrum og við getum ekki ekið þangað með aðstoð Google Maps. Samt er hann til og hann er grimmur. Miskunnarlaus.

Rafræn spor miklu algengari

„Netbrot, atvik þar sem netið kemur við sögu í kynferðisbrotum, hafa aukist alveg rosalega mikið síðustu ár,“ segir Ævar Pálmi, „sérstaklega brot sem tengjast samfélagsmiðlunum. Við getum bara tekið sem dæmi að 2018, þegar ég byrjaði í kynferðisbrotadeildinni, þá var það eiginlega undantekning að við þyrftum að ná í samskiptagögn, rafræn gögn af samskiptamiðlum,“ útskýrir hann.

Á rúmlega einu ári hafi undantekningin orðið að reglu. „Þetta snarsnerist við og nú er það bara undantekning ef við þurfum ekki að ná í rafræn gögn,“ segir hann. „Þessi rafrænu spor sem fólk skilur eftir sig eru orðin miklu algengari og meiri en áður var,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn og nefnir það sem dæmi að á hans tíma í smitrakningarteyminu í skugga heimsfaraldurs árið 2020 hafi gagnagrunnur verið settur upp í kringum vinnu teymisins sem krafist hafi auðkenningar með rafrænum skilríkjum.

„Þarna voru ekkert allir með rafræn skilríki – og það er ekki lengra síðan en 2020. Núna eru allir með rafræn skilríki, þú kemst ekkert áfram án þeirra. Þetta er gott dæmi um þessa rafrænu slóð og hvað við erum orðin háð öllu í tengslum við það,“ segir Ævar, án þess að rafræn skilríki tengist net- eða kynferðisglæpum sérstaklega. Dæmið snýst einfaldlega um það hve hinni nýju rafrænu hliðarveröld mannkynsins hefur vaxið fiskur um hrygg á örskömmum tíma.

Aðstæður til tælingar snarbatnað

„Stafrænu miðlarnir koma við sögu í flestum kynferðisbrotum í dag,“ segir Ævar Pálmi blákalt og ekki þurfa lesendur að vera meira en rétt að komast af léttasta skeiði til að muna vel allt annan raunveruleika í kynferðisbrotamálum. Raunveruleika sem símar eða tölvur tengdust ekki með nokkru móti.

„Þá erum við annars vegar með hreint og klárt netbrot, þar sem er verið að nota netið til þess að brjóta á einhverjum, eða að sönnunargögn um brotið liggi á netinu,“ heldur hann áfram og segir aðspurður að rétt sé að brotamaður og brotaþoli hittist jafnvel aldrei, en önnur hlið og umfangsmikil sé að netið sé notað í þeim tilgangi að hitta fórnarlambið.

„Fyrir kynferðisbrotamenn sem ætla sér að tæla börn hefur vettvangur …
„Fyrir kynferðisbrotamenn sem ætla sér að tæla börn hefur vettvangur þeirra bara snarbatnað, þeir sitja bara nú orðið heima hjá sér með þessa stafrænu miðla.“ AFP

„Og þar höfum við tælingu, eða „grooming“. Fyrir kynferðisbrotamenn sem ætla sér að tæla börn hefur vettvangur þeirra bara snarbatnað, þeir sitja bara nú orðið heima hjá sér með þessa stafrænu miðla, eins og Snapchat, sem er verst af þeim öllum, þú ýtir bara á „Quick Add“ og kastar út neti,“ segir Ævar Pálmi af samfélagsmiðli þar sem nafnleysi og ósýnileiki notenda laðar að sér óþekktan – en gríðarmikinn – fjölda þeirra sem gengur misgott til ætlunar.

„Aðgengi kynferðisbrotamanna að börnum er orðið það mikið að það er varla til nógu sterkt orð til að lýsa því hvað það hefur aukist,“ segir Ævar Pálmi ákveðinn.

Eltum Snapchat aðeins lengra. Getur fólk verið algjörlega nafnlaust þar?

„Já, það getur það og Snapchat er svo risastórt og algengt. Þarna eru mjög ung börn að þvælast, miklu yngri en reglur miðilsins gera ráð fyrir,“ svarar viðmælandinn, en aldurstakmarkið sem eigandi Snapchat, tæknifyrirtækið Snap INC í Santa Monica í Kaliforníu, setur er þrettán ár.

Ævar Pálmi kveður samfélagsmiðilinn Snapchat það versta í öllum sollinum. …
Ævar Pálmi kveður samfélagsmiðilinn Snapchat það versta í öllum sollinum. Þar geti brotamenn skákað í skjóli nafnleyndar og undir hælinn lagt hvort nokkurn tímann náist til þeirra feli þeir slóð sína vel. Og brotamenn reyna flestir að fela hana. AFP/Kirill Kudryavtsev

Hvað kemur inn um dyrnar?

„Þrettán ára gamalt fólk hefur ekki endilega getuna eða þroskann til þess að vera þarna inni. Samstarfskona mín lýsti því þannig að með því að rétta barni snjallsíma væri komið ígildi þess að henda því inn í herbergi með óteljandi dyr og þú veist ekkert hver kemur inn um þessar dyr eða hvert barnið getur farið,“ hefur Ævar Pálmi eftir samstarfskonunni og lýsingin hittir í mark – þú þarft ekki einu sinni að hafa heyrt um samfélagsmiðilinn Snapchat til að fá hugmyndina.

Hvernig gengur það þá fyrir sig þegar hafa þarf hendur í hári einhvers sem hefur haft samband við einhvern á Snapchat?

„Það er misjafnt. Við höfum nokkrar leiðir til að afla gagna og auðvitað er best þegar við getum aflað þeirra beint frá notandanum,“ svarar Ævar. Eðlilega sé þetta þó ekki alltaf hægt og þá þurfi lögreglan að snúa sér til eiganda viðkomandi miðils til að afla gagnanna. Oftast séu þeir aðilar bandarískir, en Ævar Pálmi nefnir þó að eigandi Facebook, Meta, hafi útibú á Írlandi.

Meta, eigandi Facebook, hefur útibú á Írlandi sem auðveldar íslenskri …
Meta, eigandi Facebook, hefur útibú á Írlandi sem auðveldar íslenskri lögreglu að sækja aðstoð til fyrirtækisins við rannsókn mála. AFP/Sebastien Bozon

„Þá þurfum við að útbúa lögformlega beiðni hérna á Íslandi, svokallaða réttarbeiðni, sem er svo send yfirvöldum í því landi þar sem fyrirtækið er. Það ríki vinnur réttarbeiðnina og aflar gagnanna sem er þungt í vöfum og getur tekið margar vikur,“ segir hann, jafnvel þurfi dómsúrskurður að falla í móttökuríkinu.

Þar sem allur andskotinn fer fram

Lögregla byrji þó ávallt á því að senda svokallaða varðveislubeiðni sem gengur út á að eigandi miðilsins frysti viðkomandi reikning og varðveiti öll gögn af honum. Þetta sé nokkuð einfalt ferli sem gangi fljótt fyrir sig. Annað sé svo að fá gögnin afhent. Þar komi réttarbeiðnirnar og tímafreka ferlið inn í myndina.

Aðspurður segir Ævar Pálmi lögregluna oft og tíðum senda réttarbeiðnir og fari þeim fjölgandi í takt við hve nettengdum kynferðisbrotum hafi fjölgað síðustu árin – raunar virðist orðatiltækið „á þessum síðustu og verstu“ kannski eiga betur við hér. „Lífið virðist alltaf vera að færast meira og meira inn í þessa netheima og við alltaf að verða háðari og háðari netinu þar sem allur andskotinn fer fram,“ segir hann.

Ævar Pálmi stjórnaði smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis í fyrstu …
Ævar Pálmi stjórnaði smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis í fyrstu bylgju faraldurs kórónuveiru. Ljósmynd/Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

Yfirleitt fái lögregla það sem hún biður um þótt það taki tíma. Hins vegar sé það gjarnan vandkvæðum bundið sé langt liðið frá broti. Fyrirtækin geymi gögn ekki endalaust, rafræn gögn taka rafrænt pláss rétt eins og pappakassarnir í geymslunni og bílskúrnum taka sitt áþreifanlega og rúmfræðilega afmarkaða pláss.

Löggæsla í beinan karllegg

En hver er Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn eiginlega, að minnsta kosti hvað feril hans á sviði löggæslu snertir? Gerum stutt hlé á ljótleika hins afskræmda heims stafrænna kynferðisbrota.

„Ég byrjaði sem afleysingamaður haustið 2002 og fór í Lögregluskólann haustið 2003, kláraði 2004,“ segir Ævar af rúmlega tveggja áratuga ferli sínum í lögreglunni, en hann er raunar sonur Ævars Pálma Eyjólfssonar heitins lögregluvarðstjóra sem náði 45 ára ferli í lögreglunni frá 1966 að telja.

Nýútskrifuðum var Ævari útdeilt til B-vaktarinnar í gamla 6-4-vaktakerfi lögreglunnar í Reykjavík sem þá hét, þar sem hann laut stjórn Gríms Grímssonar, þá aðalvarðstjóra á þeirri vakt. Síðar tók Árni Þór Sigmundsson við stjórninni af Grími og minnist Ævar góðra tíma í samstarfi sínu við Árna.

„Þetta voru líka mjög góðir tíma þegar vaktirnar voru fastar og menn vissu að hverju þeir gengu,“ segir laganna vörður á meðan ljúfsárar minningar fyrstu áranna í lögreglunni ná honum á sitt vald eina andrá.

Nýr raunveruleiki – smitrakningarteymi

„Ég var þarna í almennu deildinni til 2006 og fór þá í það sem þá hét ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og starfaði í henni gegnum þær breytingar sem urðu við sameiningu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu,“ rifjar Ævar upp af því sem áður voru þrjú embætti í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Hans deild og fleiri hafi þá orðið að miðlægri rannsóknardeild við breytingar á heildarskipulagi lögreglunnar, en þá leit rannsóknardeild skipulagðrar brotastarfsemi einnig dagsins ljós. „Ég er þarna í miðlægu deildinni þar til síðla árs 2014, þá tók ég mér launalaust leyfi í eitt ár og fór aðeins að vinna á almenna markaðnum, hjá Tryggingamiðstöðinni,“ segir Ævar frá.

Ævar Pálmi hóf störf í lögreglunni haustið 2002 og á …
Ævar Pálmi hóf störf í lögreglunni haustið 2002 og á því langan feril að baki – hefur marga fjöruna sopið eins og þar segir. mbl.is/Golli

Hann átti afturkvæmt úr tryggingunum í lögregluna, fór þar í sína gömlu deild, en sótti árið 2016 um lögreglufulltrúastöðu sem honum hlotnaðist, einnig í miðlægu deildinni, en tveimur árum síðar lá leið Ævars yfir í kynferðisbrotadeild þar sem hann hefur verið með hléum.

Til tíðinda hafi svo dregið árið 2020 þegar faraldur kórónuveiru neyddi gervalla heimsbyggðina inn í nýjan lífsstíl og nýtt tímabundið regluverk sem fáum líður líklegast úr minni. „Þá varð til það sem heitir smitrakningarteymi sem ég var nokkra mánuði í og þetta sama ár fæ ég svo aðstoðaryfirlögregluþjónsstöðu í kynferðisbrotadeildinni,“ segir Ævar og lýkur frásögn sinni af ferli sem á þessu ári nær 23 árum mínus einu hjá Tryggingamiðstöðinni.

Löngum ferli í kynferðisbrotadeildinni er þó að ljúka hjá Ævari Pálma og færist hann innan skamms inn fyrir vébönd málaflokks sem ekki er í síðri uppsveiflu en stafræn kynferðisbrot. Þar verður fyrir deild skipulagðrar brotastarfsemi.

Við höldum áfram þar sem frá var horfið

Ef við lítum á Snapchat sem slíkt, leysast mörg mál í ljósi gagna frá þeim miðli eða er þetta oftar þannig að lögreglan veit hver brotamaður er eða brotaþoli getur bent á hann?

„Á því er allur gangur,“ svarar Ævar Pálmi hreinskilnislega, „við erum með brot þar sem geranda tekst bara að fela slóð sína það vel að við komumst ekki að því hver hann er. Flestir brotamenn reyna að fela slóð sína, blekkja með einhverjum hætti, rétt eins og innbrotsþjófur reynir að skilja ekkert eftir sig þar sem hann brýst inn,“ útskýrir hann í framhaldinu.

Hins vegar sé sá aragrúi mála þar sem gerandi og þolandi þekkjast, hafa jafnvel þekkst í einhvern tíma. „Svo gerist eitthvað og brot er framið, myndbirting, mynddreifing eða hótun um slíkt. Ef við vitum hver sakborningur er og hann er hér á landi förum við í aðgerðir sem miða að því að tryggja sönnunargögn og upplýsa málið,“ heldur þessi þaulvani rannsakandi áfram og fær spurningu um brotamenn erlendis. Hvað gerir íslensk lögregla þegar landamæri ríkja liggja milli hennar og einhvers sem brotið hefur af sér kynferðislega gagnvart barni eða fullorðinni manneskju á Íslandi?

Þeir eru ekki margir áratugirnir síðan notkun tölva og síma …
Þeir eru ekki margir áratugirnir síðan notkun tölva og síma var óþekkt á vettvangi kynferðisglæpa – þeir áttu sér almennt stað þegar manneskjur komu saman í raunheimum. Sporin í þá daga voru allt annað en stafræn. AFP

„Ef við sjáum að viðkomandi er erlendis vinnum við gögnin og sendum varðveislubeiðni. Í slíkum tilfellum má segja að brotavettvangur sé í raun erlendis. Stundum komumst við ekki lengra en það – að við sjáum að brotamaður, gerandi eða IP-tala sé erlendis. Þá eru lögregluyfirvöld þess ríkis upplýst og við förum aftur í þennan réttarbeiðnapakka með vinnu við að hafa uppi á viðkomandi og upplýsa hver það er,“ lýsir Ævar Pálmi flóknu, tímafreku og því miður stundum vonlausu ferli sem að lokum endar í blindgötu.

Þá kasta menn öllu frá sér

„Þarna vinnur tíminn með rannsókn máls og mikilvægt að barn eða forráðamaður bregðist rétt við og noti svokallaða tilkynningarhnappa eða „report“ á þessum miðlum sem samskipti eiga sér stað á,“ tekur Ævar Pálmi fram, en farið verður sérstaklega yfir æskileg viðbrögð foreldra og forráðamanna barna og ungmenna undir lok viðtals.

Aðspurður segir hann samstarfið við erlend lögregluyfirvöld ágætt og nefnir dæmi um upplýsingar sem íslenska lögreglan gefi starfsbræðrum erlendis er mál koma upp. „Við sendum þá út beiðni segjum þá kannski að ákveðinn notandi – þá erum við mögulega bara með notandanafn á viðkomandi miðli – komi hér inn í mál hjá okkur og við erum kannski með IP-tölu, segjum bara að hún sé dönsk. Þá sendum við fyrirspurn til danskra löggæsluyfirvalda og segjum að við séum með þessa IP-tölu og hvort þeir geti unnið málið fyrir okkur og fundið út hver þetta er,“ lýsir Ævar Pálmi.

Takist það biður lögregla á Íslandi um frekari aðgerðir, eftir atvikum haldlagningu tækis, húsleit eða skýrslutöku, jafnvel allt framangreint. „Lögregluembætti um allan heim eru drekkhlaðin svona verkefnum svo þetta gengur oft hægt, en sé einhver í yfirvofandi hættu – sé minnsti grunur um það fyrir hendi – kasta menn öllu frá sér og það er farið beint í mál,“ segir hann.

Er jafnvel svo komið að netbrot í kynferðismálum séu alfarið tengd samfélagsmiðlum?

„Nei, ekki alfarið,“ svarar Ævar Pálmi eftir stutta umhugsun, „við sjáum að gömlu SMS-in eru notuð við kynferðisbrot og við túlkum þau sem stafræn brot, jafnvel tölvupóstur og svo má nefna uppsetningu falskra vefsíðna,“ heldur hann áfram. Að langmestu leyti hafi þó samfélagsmiðlarnir tekið við keflinu, en einnig dulkóðaðir samskiptamiðlar á borð við Signal, WhatsApp og fleiri slíka sem síknt og heilagt skjóta upp kollinum. Því næst nefnir aðstoðaryfirlögregluþjónninn skuggalega þróun.

Discord er tölvuleikavefsíða þar sem fólk streymir tölvuleikjaspilun sinni. Þar …
Discord er tölvuleikavefsíða þar sem fólk streymir tölvuleikjaspilun sinni. Þar er þó líka spjallsvæði og á því leynast þátttakendur sem hafa allt önnur hugðarefni en tölvuleiki. AFP

„Discord, sem er tölvuleikjavefsíða þar sem fólk streymir sínum leikjum eða hefur samskipti sín á milli, er vettvangur manna sem eru að dreifa kynferðislegu efni eða komast í samband við börn. Samskiptamiðlarnir eru svo margir,“ segir Ævar og nefnir Telegram þar sem gríðarleg dreifing barnaníðsefnis fari fram. Allt séu þetta áskoranir fyrir lögreglulið í heiminum, segir hann frá á meðan blaðamaður flettir Discord upp í véfréttinni alvitru, Google, og kemur auga á slagorð vefsíðunnar sem tekur á sig blæ kaldhæðinnar tvíræðni viti maður það sem Ævar Pálmi veit: „Discord – Group Chat That's All Fun & Games“.

Börn brjóta á börnum – óafvitandi

Ævar Pálmi segir börn oft ekki átta sig á því að þau séu að brjóta kynferðislega á öðrum börnum, til dæmis með dreifingu nektarmynda af öðrum, sem ekki sé samþykki fyrir. „Þau átta sig ekki á því að þá hafa þau gerst sek um dreifingu á barnaníðsefni,“ segir Ævar og blaðamaður spyr út í foreldra og hvaða varnaðarorð lögreglan hafi á takteinum handa þeim.

„Fyrst og fremst er það náttúrulega að foreldrar eiga að hugsa sig tvisvar um áður en þeir láta þessi tæki í hendurnar á mjög ungum börnum, en þeir eiga líka að fræða þau og kenna þeim þannig að krakkarnir séu undirbúnir fyrir hætturnar sem eru þarna úti. Snjallsími er rosalega stórt tæki þótt það sé ekki mikið um sig,“ segir hann og minnist í framhaldinu á að téð fræðsla sé ekki síður fræðsla fyrir foreldrana.

Hætturnar séu orðnar svo margar og víða að nánast sé ógjörningur að henda á þeim reiður. „Það eru tæling og kúganir og svo er „sextortion“, þegar brotið er á börnum eða fullorðnum með hótun um birtingu eða dreifingu nektarmynda nema viðkomandi annaðhvort borgi í peningum eða fleiri nektarmyndum eða öðrum viðkvæmum myndum af þessu tagi,“ segir Ævar og bendir á að strákar verði nú fyrir þess háttar kúgunum ekki síður en stelpur.

„Það er kannski einhver sæt stelpa sem setur sig í samband við þá, spjall hefst og eitt leiðir af öðru og þá vil ég bara minna á í svona tilfellum að ef þetta lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt þá er það oftast raunin,“ segir viðmælandinn og nefnir gömul sannindi og ný.

Hvað með andlegu hliðina?

Við færum okkur aftur út í tölvuleiki sem hópar spila og bjóða upp á spjall milli notenda. Í þeim notendahópi reynist oftar en ekki misjafn sauður í mörgu fé eins og Ævar þekkir. „Ég nefni vinsæla leiki eins og Roblox og Minecraft þar sem brotamenn komast í samband við börn og færa svo samskiptin yfir á miðla eins og WhatsApp, Snapchat, Telegram eða eitthvað þess háttar og það er ekki að ástæðulausu sem viðkomandi færir sig yfir á þá miðla, hann vill geta verið í friði og falið slóð sína eftir atvikum,“ segir hann. Lögregla sé með nokkur slík mál til meðferðar.

Nú höfum við farið yfir margt ófallegt og talað um brotaþola sem margir hverjir mega þola þungar raunir. Hvað með þig sjálfan eftir mörg ár í kynferðisbrotadeild og öll þessi mál sem varla er hægt að tala um að endi vel fyrir nokkurn þótt einhverjum sé refsað að lokum. Hvernig leggst þessi langvarandi nærvera við þungan málaflokk í þig?

„Já...,“ segir Ævar Pálmi Pálmason hugsi. Skiljanlega. „Þetta tekur alveg á og ekki síst að þurfa alltaf að vera að spyrja út í neikvæða lífsreynslu og jafnvel neikvæðustu lífsreynslu fólks. Og þarna ríður mikið á að eiga góða vinnufélaga og leita stuðnings hjá þeim og eins hjá sérfræðingum – sem stendur öllum lögreglumönnum til boða starfsins vegna,“ svarar hann alvarlegur í bragði.

Félagastuðningurinn sé að mati Ævars gríðarlega mikilvægur, einfaldlega að tala við einhvern sem veit hvað viðmælandi hans er að fara í gegnum vegna þess að hann hefur verið þar sjálfur og upplifað það sama.

Ævar Pálmi segir félagastuðninginn í lögreglunni gulls ígildi, að geta …
Ævar Pálmi segir félagastuðninginn í lögreglunni gulls ígildi, að geta rætt málin í góðu tómi við vinnufélaga sem hafi gengið í gegnum nákvæmlega það sama. Auk þess standi lögreglumönnum sérfræðiaðstoð til boða gerist þess þörf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gagnrýnd fyrir erfiðar spurningar

Sérfræðingar á sviði barnaverndar taka skýrslur af börnum. Hvað með þegar þú sest niður í skýrslutöku með fullorðinni manneskju, í hvaða stellingar seturðu þig til að aðstæðurnar verði ekki skelfilega þungbærar, þrúgandi?

Hér kemur blaðamaður ekki að tómum kofunum, Ævar er þaulreyndur í þessu hlutverki eftir langt árabil í návígi við þau mál sem líklega fæstir vildu verða þolendur í fengju þeir yfir höfuð að velja sér brotaflokk.

„Við undirbúum okkur fyrir hverja einustu skýrslutöku og tökum mið af hverri fyrir sig. Þær eru allar einstakar,“ svarar Ævar, „maður þarf náttúrulega að sýna ákveðna nærgætni, en þó ekki þannig að við getum ekki spurt erfiðu spurninganna, óþægilegu spurninganna fyrir rannsóknina. Við erum oft gagnrýnd fyrir að spyrja spurninga sem eru erfiðar, en það eru ástæður á bak við að við spyrjum þeirra – til þess að komast að hinu sanna og rétta,“ lýkur hann útlistun sinni á skýrslutökutækni þar sem reynt er á þolrif hlutaðeigandi til hins ýtrasta.

Við tæptum stuttlega á varnaðarorðum til foreldra framar í viðtalinu og sláum botninn á sama vettvangi. Hér er mikið í húfi.

„Að foreldrar og forráðamenn kynni sér hvað börnin þeirra eru að gera á netinu og tali við þau um það er mikilvægt,“ segir Ævar Pálmi, „það er ekki einkamál barns sem er með snjallsíma hvað það er að gera á netinu. Eins skapar þessi samræða traust milli barna og forráðamanna um hvað er að gerast.

Veist þú hvert þitt barn fer í gegnum símann? Ævar …
Veist þú hvert þitt barn fer í gegnum símann? Ævar Pálmi mælir með því að foreldrar kíki í símann hjá börnum sínum og ræði við þau hvað þau séu að gera á stafrænum óravíddum lýðnetsins. „Þetta eru tæki sem foreldrarnir bera ábyrgð á,“ bendir hann réttilega á. AFP/Gabriel Bouys

Foreldrar eiga hreinlega að kíkja í símann hjá börnunum sínum, þetta eru tæki sem foreldrarnir bera ábyrgð á, börn fá þessa síma ekki nema með leyfi foreldranna,“ heldur hann ákveðið áfram og lokaorð Ævars Pálma Pálmasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns fara langt með að draga efni alls viðtalsins saman í eina setningu:

„Að tala við krakkana og hlusta á þá eykur traust og aukið traust eykur líkurnar á því að börn segi frá ef eitthvað kemur upp á.“

Viðtalið við Ævar Pálma er annað viðtalið í greinarflokki mbl.is um netglæpi sem birtast mun lesendum í áföngum það sem eftir lifir febrúarmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert