Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá lögfræðistofunni Lex og einn eiganda hennar, segir að ríkissjóði beri að fylgja endurgreiðslukröfu eftir vegna ofgreiddra framlaga úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka.
Þetta segir Arnar í færslu sinni á Facebook.
„Nú liggja fyrir lögfræðiálit, sem fjármálaráðuneytið aflaði, um framlög úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka og meinbugi þar á. Er þar m.a. komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að afturkalla ákvarðanir um framlögin og að einnig sé óheimilt að endurkrefja um hið ofgreidda fé.“
Í færslu sinni fjallar Arnar um ákvæði laga nr. 162/2006 um starfsemi stjórnmálasamtaka sem hafa verið í brennidepli í málinu.
„Þeim hefur oftsinnis verið breytt síðar, m.a. með lögum nr. 117/2021. Ég sakna umfjöllunar í álitunum um viðurlagaákvæði 13. gr. laganna og afleiðingar þess ákvæðis fyrir úrlausn málsins. Í greininni segir að hver sem taki við framlögum sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. laganna skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Í 6. gr. segir m.a. óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá opinberum aðilum sem ekki rúmast innan ákvæða II. kafla laganna. Í þessum II. kafla laganna er m.a. ákvæðið sem hefur verið í brennidepli í málinu, þ.e. 5. gr. a. um að skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði sé að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C í lögunum, þ.e. sem stjórnmálasamtök.“
Arnar skrifar áfram og um 13.gr. laganna, þar sem er fjallað um saknæmi, en í ákvæðinu segir að refsa skuli fyrir brot, sem hér undir kunna að heyra, séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.
„Þetta atriði hefur mikla þýðingu. Gáleysisviðmiðið hér yrði tæplega túlkað strangt auk þess sem hæpið er fyrir stjórnmálamenn að bera ókunnugleika við hafandi komið sjálfir að setningu laganna.“
Arnar segir í samtali við mbl.is að þegar metið sé hvort um gáleysi sé að ræða er meðal annars litið til þess hvort um góða trú sé að ræða.
„Það er mitt mat að það sé ekki góð trú hjá viðtakendum peninganna, það er bæði út af lögunum og þessum refsiákvæðum. En það er líka vegna þess að stjórnmálamennirnir komu að setningu þessara laga og þeir geta ekki borið fyrir sig einhverri góðri trú hafandi sjálfir samið lögin. Það verður að leggja til grundvallar að þau hafi vitað eða mátt vitað að skilyrði greiðslunnar hafi ekki verið uppfyllt,“ segir Arnar við mbl.is.
Arnar endar færsluna á Facebook á því að segja að miðað við framangreint kunni það að hafa verið refsivert fyrir viðkomandi stjórnmálasamtök að taka við fénu.
„Að minnsta kosti geta viðtakendur fjárins ekki hafa verið í góðri trú. Þegar svo háttar til standa lög að mínum dómi til þess að afturkalla umræddar ákvarðanir og endurkrefja féð í ríkissjóð. Ríkissjóður eigi þessa endurgreiðslukröfu og beri að fylgja henni eftir. Það er á ábyrgð fjármálaráðherra.“