Útvegaði sjálfur lyfið sem honum var byrlað

Eiturefnafræðingur telur að Páll Steingrímsson hafi óafvitandi innbyrt um 15-20 töflur af lyfseðilsskylda svefnlyfinu imovane. Fjórar töflur geta reynst banvænn skammtur. Og hurð skall nærri hælum.

Þetta kemur fram í viðtali við Pál í Spursmálum. Þar er hann spurður út í atburðarásina sem nánast dró hann til dauða. Þar er hann meðal annars spurður út í hvaða efni hann telji að sér hafi verið byrlað.

Sýni voru ekki tekin

Vandinn er hins vegar sá að lögregla gerði afdrifarík mistök í málinu þegar Páll var fluttur á sjúkrahús á Akureyri og í kjölfarið til Reykjavíkur, nær dauða en lífi. Ekki var gerð blóðrannsókn til þess að leita eftir efninu sem þarna átti í hlut. Það var ekki gert, jafnvel þótt fram hafi komið í símtali til neyðarlínu að grunur væri uppi um að honum hefði verið byrlað ólyfjan.

Páll hefur haldið því fram allt frá árinu 2021 að fyrrum eiginkona hans hafi byrlað honum lyfinu í því skyni að komast yfir síma hans og í framhaldinu í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Enginn botn hefur fengist í það mál. Lögregla felldi málið niður, meðal annars vegna þess að starfsmenn RÚV sýndu lítinn samstarfsvilja og töfðu málið með þeim afleiðingum að fyrningarfrestur samkvæmt sakamálalögum leið.

Lýsingar á lyfinu

Orðaskiptin um lyfið sem Páll telur að sér hafi verið byrlað má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan:

Hvaða efni er þetta?

„Imovane, svefnlyf. Fyrir óvana manneskju þá eru fjórar pillur lífshættulegar.“

Þú ert nú heljarmenni að vöxtum.

„Já, ég er yfir tveir metrar og 120 kíló, já þannig að það má segja að stærðin hafi bjargað mér í þetta skipti.“

Kölluð út á flugvöll til hinstu kveðju

Þú lifðir þetta af augljóslega, þess vegna ert þú hér. En það mátti litlu muna. Börnin þín eru kölluð, nánast á dánarbeð.

„Já, já. Börnin mín voru kölluð út á flugvöll og fyrrverandi tengdamóður mín og þeim var bara ráðlagt að kveðja mig. Það var bara ekki talið víst að ég myndi hafa þetta af og líkurnar voru reyndar ekki mér í hag.“

En það eru engar sannanir fyrir því að þetta efni hafi verið sett í bjórinn.

„Nei. Það eru engar beinar sannanir vegna þess að það var ekki leitað eftir því.“

Þekkir bragðið af imoven

En hvernig veistu þá að það var þetta svefnlyf?

„Af því að ég þekkti bragðið af því.“

Þú hefur tekið svona töflur áður?

„Já. Þegar ég var að byrja sem stýrimaður, og maður var að rétta sig af og maður var á næturvöktum þá var hjúkrunarfræðingur sem tengdist mér fjölskylduböndum, ég var að ræða við hana um það hvað mér gengi illa að snúa sólarhringnum við. Hún sagði, taktu bara þetta lyf, þú þarft þetta í þrjá daga og það var bara það sem ég gerði. Þegar ég byrjaði eftir frí sem stýrimaður þá tók ég þetta bara í þrjá daga og þá var ég búinn að snúa sólarhringnum við.“

En er þetta lyfseðilsskylt lyf?

„Já.“

Hafði útvegað eiginkonunni fyrrverandi lyfið

Og var þetta lyf á heimilinu eða?

„Nei, mín fyrrverandi hefur samband við mig, og þessi samskipti eru meira að segja til. Óskar eftir því eða spyr mig hvort ég geti reddað þessu því henni gangi eitthvað illa að sofa. Og ég á vin sem er læknir og ég bið hann um að bjarga þessu. Ég geri það 20. apríl.“

Þannig að það er vitað að hún hafði þessi efni undir höndum?

„Já, hún leysti þau út. Það er á hreinu.“

Viðtalið við Pál má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert