Líf Magneudóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúar Vinstri grænna og Sósíalista, hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu á Facebook í kjölfar þess að meirihlutinn er sprunginn í borginni.
Segjast þær tilbúnar til viðræðna um myndun nýs meirihluta við þá sem deila þeirra sýn í borgarmálunum.
Möguleiki er á því að vinstri menn myndu fjölflokka meirihluta í borginni án Framsóknarflokks og Sjálfstæðismanna. Þannig að Samfylking, VG, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins og Sósíalistar myndi meirihluta.
Reiðubúnar í samtal
Engar fregnir hafa þó borist af því að slíkar viðræður standi yfir en þær Líf og Sanna koma fram í sameiningu og segja að þær séu tilbúnar til samstarfs við flokka á vinstri vængnum um myndun nýs meirihluta. Þær telja ekki eftirspurn eftir hægri öflum í Reykjavík.
„Þvert á móti er mikilvægt að róttæk félagshyggjusjónarmið komi þar skýrt að málum. Það er fullur vilji okkar til að vinna sameiginlega að því marki með öllum mögulegum hætti. Við erum til í slaginn að taka á brýnum verkefnum svo sem í húsnæðismálum og skólamálum. Allar ákvarðanir um framtíð Reykjavíkur ætti að taka á grunni lýðræðis og hugsjóna um jöfnuð og félagslegt réttlæti, en ekki með hrossakaupum í bakherbergjum til að svala persónulegum metnaði. Í því skyni að koma á ábyrgri forystu fyrir Reykjavík lýsum við okkur reiðubúnar til samtals við þá flokka í borgarstjórn sem eru sama sinnis.“