Ætlaði að verða iðnaðarmaður

Siggi á að baki hálfrar aldar feril. Hann varð landsþekktur …
Siggi á að baki hálfrar aldar feril. Hann varð landsþekktur eftir áramótaskaup 1978. mbl.is/Ásdís

Í Hafnarfirði býr stórleikarinn góðkunni Sigurður Sigurjónsson, betur þekktur einfaldlega sem Siggi Sigurjóns. 

„Ég fer ekkert héðan,“ segir Siggi, sem er stoltur Gaflari, fæddur á Hamarsbrautinni í heimahúsi, sonur hjónanna Sigurjóns Sigurðssonar og Kristbjargar Guðmundsdóttur.

„Í götunni þar lærði ég allt sem ég kann í dag. Æskan var yndisleg og ég á margar góðar minningar. Ég hef upplifað miklar breytingar en þegar ég var að alast upp var Hafnarfjörður nánast eins og lítið fiskiþorp og við krakkarnir lékum okkur í fjörunni.“

Féll milli skips og bryggju

Sigurjón faðir Sigga var sjómaður en hann lést þegar Siggi var aðeins fimm ára.

„Hann féll milli skips og bryggju þegar hann var að fara um borð. Þetta var að vetri til og enginn til vitnis um þetta, en hann féll í sjóinn og drukknaði. Þetta breytti öllu, en mamma var þá ein með okkur bræðurna og þurfti að fara út á vinnumarkaðinn,“ segir Siggi, en bróðir hans Hreiðar var þá átta ára.

„Framtíðarplönin fóru út um gluggann. Við vorum þá í leiguhúsnæði en þegar við bræðurnir vorum unglingar náðum við að kaupa húsnæði með mömmu,“ segir Siggi, en bróðir hans var þá smiður og Siggi vann ýmis störf, í fiskvinnslu og sveitastörf.

Var leiklistarbakterían kviknuð í barnæsku?

„Nei, í rauninni ekki. Þetta gerðist hægt og sígandi í Flensborg þar sem ég var eitthvað að leika á árshátíðum og eitt leiddi af öðru. Ég rambaði svo inn í leiklistarskólann SÁL, sem var þá kvöldskóli og tilraun til að stofna leiklistarskóla sem síðar tókst með ágætum. Ég ílengdist þarna og áður en ég veit er ég tvítugur og farinn að vinna í Þjóðleikhúsinu,“ segir Siggi, en hann var sautján ára þegar hann hóf námið í leiklist.

„Skólinn breyttist svo í Leiklistarskóla Íslands og við vorum tekin inn í hann og er ég í fyrsta árgangi sem útskrifast árið 1976.“

Að leika með meistaradeildinni

Sautján ára gamall gerði Siggi sér enga grein fyrir því að hann ætti eftir að gera leiklistina að ævistarfi.

„Þetta var bara skemmtilegur tími og mér gekk ágætlega. Þetta atvikaðist einhvern veginn en það var eins fjarri því og hugsast getur að ég ætlaði að leggja þetta fyrir mig. Ég ætlaði að verða iðnaðarmaður eins og allir í kringum mig,“ segir hann, en eftir útskrift úr Leiklistarskólanum beið hans starf sem leikari.

Siggi leikur hér í Einræðisherranum í Þjóðleikhúsinu árið 2018.
Siggi leikur hér í Einræðisherranum í Þjóðleikhúsinu árið 2018. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Ég fékk símtal frá Sveini Einarssyni þjóðleikhússtjóra og hann bauð mér vinnu. Fyrsta rullan mín var bakaradrengurinn í Dýrunum í Hálsaskógi; það var nú ekki leiðinlegt að byrja á því. Þetta eru næstum fimmtíu ár síðan,“ segir hann.

„Ég fann mig þarna frá fyrsta degi. Ég var eiginlega óharðnaður unglingur sem var farinn að leika með meistaradeildinni, en allir tóku mér mjög vel. Þarna tók við annar skóli; að læra af sér reyndari mönnum og konum,“ segir Siggi, en hann lék í fjölmörgum verkum strax á sínum fyrstu árum.

„Leikhúsið bjó mig til, svo að segja.“

Margir vissu daginn eftir hver ég var

Hvort heillaði meira, gamanleikur eða drama?

„Mér fannst gaman að öllu, en þótti kómískur leikari til að byrja með. Leikhússtjórarnir pössuðu upp á að ég fengi líka annars slags hlutverk, sem var gulls ígildi fyrir mig.“

Frægðin steig Sigga ekki til höfuðs en fljótlega á ferlinum varð hann landsþekktur.

„Ég hef satt að segja búið við það frá upphafi að vera þekktur, eða kunnuglegur skulum við segja. Ég lék í áramótaskaupinu 1978 og allir horfðu á. Daginn eftir vissu ótrúlega margir hver ég var. Þar byrjar ballið,“ segir hann og nefnir að þegar Spaugstofan byrjaði 1989 hafi hann vissulega orðið þekktur á hverju íslensku heimili.

Spaugstofumenn skemmtu landsmönnum með sprelli sínu í tvo áratugi. Hér …
Spaugstofumenn skemmtu landsmönnum með sprelli sínu í tvo áratugi. Hér má sjá þá Örn Árna, Sigga og Karl Ágúst. mbl.is/RAX

„Þetta hefur aldrei truflað mig.“

Ítarlegt viðtal er við Sigga Sigurjóns í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert