Guðrún Hafsteinsdóttir minntist föður síns í ræðu sinni í gær þegar hún tilkynnti um framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi flokksins.
Rakti hún í ræðu sinni sögu Hafsteins og baráttu hans við valdakerfið – sem varð til þess að hann stofnaði ísgerðina Kjörís – sem hún sagði að kjarnaði sjálfstæðisstefnuna.
Faðir Guðrúnar var Hafsteinn Kristinsson. Hann fæddist 11. ágúst 1933 á Selfossi og lést 18. apríl 1993.
Guðrún sagði frá því að hann hafi kosið að nýta hæfileika sína til þess að fjölga valkostum almennings við matarinnkaupin.
Hann hafi lagt allt undir með því að stofna fyrirtæki um framleiðslu osta.
„Sjálfstæðisstefnan kjarnast líka í baráttuþreki þessa manns þegar hann tókst á við ofríki valdakerfis þess tíma sem vildi kveða þetta einkaframtak í kútinn. Bændurnir sem seldu hinni sjálfstæðu ostagerð mjólk voru einn af öðrum þvingaðir til hlýðni, með einum eða öðrum hætti,“ sagði Guðrún.
Án hráefnis hafi engin framleiðsla á ostum verið. Fyrir vikið hafi skuldir sjálfstæðu ostagerðarinnar safnast upp svo stefndi í gjaldþrot.
„Valdið sá sér leik á borði og reiddi til rothöggs með því að bjóðast til að kaupa framleiðslutæki fyrirtækisins fyrir nákvæmlega þá upphæð sem skuldin var í bankanum, þvílík tilviljun. Í smáa letrinu í samningnum fólst ákvæði um að eigandinn myndi aldrei nokkru sinni framar starfa í mjólkuriðnaði á Íslandi.“
Hafsteinn fékk þá ráð frá Sigurði Líndal lagaprófessor sem sagði honum að atvinnufrelsi væri stjórnarskrárbundin mannréttindi sem ekki væri hægt að afsala sér með pennastriki. Ákveðið væri því þýðingarlaust.
Hafsteinn skrifaði undir og þar með var ostagerðin farin en skuldirnar líka. „Það er ekki hægt að eiga minna en ekki neitt - héðan í frá liggur leiðin upp á við,“ sagði Hafsteinn.
Orð Hafsteins rættust og var Kjörís stofnað. Við tók „áratugalöng barátta fyrir frelsinu og einkaframtakinu, fyrir nýsköpuninni, fjölbreytninni og valfrelsi neytandans,“ eins og Guðrún orðaði það.
Þegar Guðrún var 23 ára varð faðir hennar bráðkvaddur og tók hún þá við rekstri fyrirtækisins.
Sagði hún að barátta fjölskyldu hennar fyrir viðskiptafrelsi á Íslandi hafi mótað sig, sín gildi og sínar hugsjónir, og verið sér ómetanlegt veganesti um lífsins veg.
„Ég hef af eigin raun upplifað hversu mikilvægt frelsið er og hversu miklar afleiðingar það getur haft ef það er brotið á bak aftur.
Ég hef líka lært hvernig framtak einstaklingsins getur skapað ótal tækifæri, bara ef það fær að lifa og blómstra. Gildi sjálfstæðisstefnunnar eru mér í raun í blóð borin.“