„Ég hef ekkert á móti Sjálfstæðisflokknum“

Helga Þórðardóttir til vinstri og til hægri er Hildur Björnsdóttir, …
Helga Þórðardóttir til vinstri og til hægri er Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Samsett mynd

Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, segir að formlegar meirihlutaviðræður hafi aldrei hafist þrátt fyrir að annað hafi verið fullyrt.

Þar að auki kveðst hún persónulega ekkert hafa á móti borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

Í gær sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, að flokkurin myndi ekki taka þátt í því að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni. Aðeins degi á undan greindi mbl.is frá því að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins ættu í formlegum meirihlutaviðræðum.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is voru allir oddvitar á sama máli um að ákveða að hefja formlegar meirihlutaviðræður á föstudagskvöldi.

Formlegar viðræður hófust aldrei

Það er tilkynnt um formlegar viðræður sem flokkurinn þinn á að taka þátt í á föstudaginn. Síðan á laugardeginum kemur fram að þið munið ekki taka þátt í viðræðum.

„Nei, það voru aldrei formlegar viðræður. Þetta gerðist bara svo snöggt að enginn náði að tala saman.“

Helga segir að allir séu að tala við alla og að staðan sé afskaplega viðkvæm. Hún segir það vera ábyrgð borgarfulltrúa að leysa úr stöðunni.

„Fólk verður að kyngja stolti og gera alls konar,“ segir Helga en kveðst þó ekkert geta sagt um stöðu mála.

Ekki verið „talað fallega um okkur“

En af hverju neitið þið að vinna með Sjálfstæðisflokknum?

„Af hverju? Ég hef ekkert á móti Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, það er bara allt rosalega gott fólk, ef þú spyrð mig. Þetta var bara stjórnin og fólkið – fullt af fólki. Ég er bara ekkert búin að ná að ræða við mitt fólk.“

Var þetta þá grasrótin sem var mótfallin?

„Já og stjórnin. Það er bara eins og hefur komið fram. Það hefur ekki beint verið talað fallega um okkur,“ segir Helga.

Ekki tókst að spyrja Helgu beint út hvort að hún útiloki alfarið að vinna með Sjálfstæðisflokknum, eins og Inga Sæland, sökum þess að hún þurfti að þjóta á fund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert