Þetta er lífsstíll,“ segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir aðspurð hvort ekki sé nóg að gera í heimildarmyndabransanum. Um helgina verður frumsýnd í Laugarásbíói myndin Sigurvilji um ævi og störf Sigurbjörns Bárðarsonar, okkar fremsta knapa og tamningamanns. Hrafnhildur er að þessu sinni í sæti leikstjórans, en framleiðslan er í höndum Hekla films.
Hrafnhildur var fljót að slá til þegar hún var beðin að koma að þessari mynd og segir afar gaman að kynnast Sigurbirni.
„Mig langaði að vera fluga á vegg en Sigurbjörn er maður orðsins. Hann er sögumaður, sem var ekki verra. Hann er á ótrúlegum stað sem knapi, hestamaður og íþróttamaður,“ segir hún.
„Myndin er í raun uppgjör við hestamennskuna í Reykjavík. Sigurbjörn er alinn upp af hestakörlum og bílabröskurum,“ segir Hrafnhildur.
„Í myndinni er sögð saga Sigurbjörns og hans fjölskyldu, en auðvitað stendur að baki honum góð kona,“ segir hún, en eiginkona hans er Fríða Hildur Steinarsdóttir sem er einnig hestakona, knapi og hirðir.
„Sigurbjörn er enn að keppa, orðinn 73 ára gamall,“ segir Hrafnhildur og segir Sigurbjörn klárlega þann íþróttamann sem fengið hefur flesta verðlaunagripi allra Íslendinga. Hann byggði hundrað fermetra hús undir þá alla, sem var þá stútfullt, en síðar seldi hann húsið og nú eru þeir í kössum.
„Þegar ég labbaði inn í þetta hús fékk ég gæsahúð því að baki lágu ansi margir reiðtúrar og mörg afrek.“
Sigurbjörn hefur alla ævi unnið við hesta: að temja, braska og sem knapi. Í myndinni er ekki aðeins farið yfir lífshlaup Sigurbjörns heldur eru persónueinkenni hans einnig skoðuð. Spurð út í þau svarar Hrafnhildur:
„Það er þessi sigurvilji. Rosalegur metnaður. Hann leggur alltaf mikið á sig en er um leið næmur. Hann býr yfir þrautseigju og seiglu sem ég ber óendanlega virðingu fyrir. Svo hefur hann gaman af því að braska, sem er skemmtilegt, og hann er ótrúlega sparsamur. Hann er bissnessmaður fram í fingurgóma. Hann er líka umdeildur og það voru margir sem vildu að hann hætti og leyfði öðrum að komast að,“ segir hún, en Sigurbjörn er ekki tilbúinn til að hætta. Hann er enn þann dag í dag þjálfari íslenska landsliðsins og, eins og fyrr segir, enn að keppa.
„Hann hefur lagt ótrúlega mikið af mörkum til hestamennskunnar, en mjög mikið hefur gerst á þessari hálfu öld eða svo síðan hann byrjaði í hestum. Hestarnir eru svo miklu betri en þeir voru, vegna kynbóta og kannski eru aðrar aðferðir notaðar við tamningar,“ segir hún.
„Sigurbjörn er stórveldi.“
Ítarlegt viðtal er við Hrafnhildi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.