Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri og fyrrum lögreglustjóri, dró lappirnar og svaraði ekki erindum lögreglu þegar kallað var eftir upplýsingum um símtæki sem starfsmenn RÚV keyptu í apríl 2021 og tengdu við óskráð númer sem var að nær öllu leyti eins og símanúmer Páls Steingrímssonar, skipstjóra. Það varð meðal annars til þess að rannsókn byrlunarmálsins rann út í sandinn.
Síminn var keyptur um svipað leyti og Páll telur að fyrrum eiginkona hans hafi reynt að byrla honum ólyfjan. Það gerðist ekki í apríl en í byrjun maí veiktist Páll mjög alvarlega af völdum eitrunar sem mögulega er talin afleiðing af risaskammti af svefnlyfinu imovane.
Meðan Páll lá milli heims og helju á Landspítalanum vegna eitrunarinnar afhenti fyrrum eiginkona Páls starfsfólki RÚV símann í Efstaleiti og var hann í kjölfarið afritaður.
Nokkrum vikum síðar tóku blaðamenn á öðrum fjölmiðlum, nánar tiltekið Stundinni og Kjarnanum að birta fréttir upp úr einkaskilaboðum sem aflað hafði verið af síma Páls.
Þetta staðfesta gögn frá lögregluyfirvöldum.
Páll er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar atburðina frá vordögum 2021 og eftirleik þeirra. Viðtalið hefur vakið gríðarlega athygli frá því að það fór í loftið á mbl.is.
Í spilaranum hér að ofan má sjá og heyra lýsingar Páls á framgöngu Stefáns Eiríkssonar, útvarpsstjóra. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
Spursmál hafa óskað eftir viðtali við útvarpsstjóra í kjölfar þessarar yfirferðar Páls.
Páll hefur sjálfur kallað eftir því að Alþingi Íslendinga hlutist til um rannsókn á framgöngu RÚV og starfsmanna stofnunarinnar í tengslum við þetta mál.
„Þau vita að þau eru sek.“
Þau halda hinu gagnstæða fram, svo að því sé haldið til haga.
„Já, en það kemur bara klárlega fram í yfirlýsingum lögreglustjórans á Akureyri til ríkissaksóknara að hann staðfestir öll orð lögreglunnar. Það er ekki ein athugasemd. Þar sem hann segir, þau brutu af sér en við getum ekki sannað hver gerði hvað. Það liggur á borðinu. Því verður ekki neitað.“
Og það er þessi tiltekni hópur sem þarna á í hlut.
„Þau sleppa á lagatæknilegu atriði. OG við skulum líka hafa eitt í huga. Þau gerðu allt sem þau gátu til að tefja málið, til að láta það fyrnast. Þau sögðu eitt við kollega sína, þau sögðu að þau væru að reka á eftir lögreglunni að klára rannsóknina. En ég ætla að nefna eitt skýrt dæmi um það hversu mikil lygi var í þeim orðum. Í janúar 2023 óskar lögreglan eftir því að fá símagögnin um þennan síma sem var notaður til þess að afrita símann minn. Það gerist í byrjun janúar 2023. Þá er lögreglan búin að fá einhvern smjörþef af þessum síma um haustið.“
Er það símtækið sem Ríkisútvarpið keypti fyrir sinn reikning?
„Já. Og það fóru þarna fram bréfaskipti milli lögreglunnar og Stefáns Eiríkssonar.“
Fyrrum lögreglustjóra.
„Já, fyrrum lögreglustjóra. Við skulum ekki gleyma því að hann er fyrrum lögreglustjóri. Hann svarar ekki og hann svarar illa. Og hann afhendir ekki gögnin fyrr en 14. mars. Þá er ekki nema einn og hálfur mánuður í fyrningu.“
Á málinu?
„Já.“
Og hann er þess vel meðvitaður?
„Ég held að það séu fáir menn sem eru jafn vel meðvitaðir um hvernig eigi að tefja mál. Þú veist Aðalsteinn kærir. Það mátti ekki boða Aðalstein til yfirheyrslu með stöðu sakbornings.“
Hvar er þetta símtæki niður komið sem notað var til að afrita?
„Ég veit það ekki.“
Hefur það aldrei komist í hendur lögreglunnar?
„Ekki svo ég viti til. Ég sá á tímabili að það var verið að reyna að brjótast inn á Facebook-aðganginn minn og Gmail. Ég sá það. Þú færð tilkynningar, ef þú kannt að lesa á Facebook.“
Á meðan þetta mál stendur yfir?
„Já. Ég sé það, og það var alltaf á mjög sérstökum tíma, eftir klukkan tíu á kvöldin og til tvö á næturnar sem þau innbrot voru reynd.“
Og tókst ekki?
„Nei. Ég skipti um leyniorð á þessu öllu saman. Ég sá bara, að síminn sem var slökkt, það kemur fram á recordinu hvaða tæki það er sem er að fara inn á, ef þú ert með tölvu eða spjaldtölvu, þá sérðu af hvaða tæki er farið inn á accountinn þinn. Og ég sé að það er ítrekað gert með símtæki sem ber nánast sama heiti og minn sími. En ég var ekki í þessum landshluta þegar þessar innbrotstilraunir voru reyndar. Þannig að þetta var eitthvað reynt fram til ársins 2022 en eftir það hef ég ekki orðið var við þetta.“
Viðtalið við Pál Steingrímsson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: