Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi sem samanstendur af Slökkviliði Akureyrar, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Norlandair, lýsir þungum áhyggjum vegna lokunar flugbrauta 13 og 31 á Reykjavíkurflugvelli.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu.
Flugbrautinni var lokað í gær að kröfu Samgöngustofu vegna trjáa í Öskjuhlíð sem sögð eru hafa áhrif á aðflug flugvéla að flugbrautinni.
„Það er augljóst og óumdeilt að algjör lokun á umræddum flugbrautum mun hafa mun verulegar afleiðingar á lífslíkur og batahorfur fjölmargra bráðveikra og alvarlega slasaðra sjúklinga sem þurfa á tímaháðum inngripum að halda á Landspítala þar sem önnur sjúkrahús á landinu geta ekki veitt viðlíka meðferð.
Einnig er augljóst að keðjuverkandi afleiðingar umræddra lokana munu valda fráflæðisvanda á Landspítala, þrengja mun að legurýmum annarra sjúkrahúsa og tafir munu verða á aðgerðum og rannsóknum sjúklinga af landsbyggðinni,“ segir í yfirlýsingunni.
Fram kemur að um 650 sjúklingar séu fluttir árlega til Reykjavíkur með sjúkraflugvél af landsbyggðinni. Í 45% tilfella sé um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráðaþjónustu á Landspítalanum.
„Í slíkum tilfellum er ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími sem myndi hljótast vegna flutnings frá Keflavíkurflugvelli, hvort sem um er að ræða landleiðina með sjúkrabíl eða með þyrlu, getur dregið verulega úr lífslíkum eða batahorfum viðkomandi.“
Lokun flugbrautarinnar komi til með að hafa áhrif á 160 sjúkraflug á ári og þýðir það áhrif á um 70 sjúklinga sem eru í hæsta forgangsflokki ef tekið er mið af árinu 2024.
„Af ofangreindu er það skýr og augljós krafa að aðilar málsins, þ.e. Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneyti, ISAVIA og Samgöngustofa, axli ábyrgð og tryggi opnun og rekstraröryggi flugbrauta 13 og 31 með eins tafarlausum hætti og mögulegt er,“ segir í tilkynningu.
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, tekur undir gagnrýni þá sem berst í erindi Miðstöðvar sjúkraflugs.
Nú þegar skilið getur á milli lífs og dauða trompa nokkur tré tilveru fólks. Hvað varðar framtíðarstaðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs - Reykjavíkurflugvallar, þá er hann þar sem hann er í dag og önnur staðsetning er ekki fundin.Það er kostuleg og óskiljanleg skriffinnska og kerfisblæti virðast standa í vegi fyrir því að öll gætum við þurft á bráðaþjónustu þjóðarsjúkrahússins að halda.