„Við erum ekkert af baki dottin með þessa hugsjón okkar og þessi fjárfesting er til marks um það,“ segir Finnur Ólafsson, einn aðstandenda brugghússins Galdurs á Hólmavík.
Brugghúsið var sett á stofn árið 2021 og hefur síðan sent frá sér nokkrar bjórtegundir sem notið hafa talsverðra vinsælda. Innan tíðar verður hætt að tappa bjórum Galdur á flöskur og framleiðslan færð yfir í dósir í staðinn. Keypt hefur verið dósalína í brugghúsið og Finnur og félagar stefna hátt.
„Við erum búnir að vera í þeim fasa að horfa til framtíðar og ákveða hvernig við ætlum að haga rekstrinum. Með því að skipta yfir í dósir teljum við að við munum skila betri vöru til neytandans,“ segir hann.
Mikil vinna hefur verið lögð í hönnun á umbúðum að sögn Finns og það kostar sitt að kaupa inn tæki. „Já, þetta er talsverður kostnaður. Auk þess að kaupa dósalínu höfum við skipt út olíugufukatli fyrir rafmagnsgufuketil. Þetta er hvort tveggja mun umhverfisvænna en verið hefur. Allt í allt er þetta fjárfesting upp á ríflega 20 milljónir króna. Það er annaðhvort að fara „all in“ í þetta eða sleppa því bara,“ segir Finnur og hlær.
Sumarið 2023 var opnuð gestastofa við brugghúsið þar sem gestir geta kynnt sér framleiðsluna og keypt sér bjóra Galdurs. Þeir eru auk þess seldir í ríkinu en þar hefur salan verið „hægvaxandi“ að sögn Finns. Stefnt er að því að bjórar Galdurs verði fáanlegir í dós í Ríkinu frá 1. apríl. Dósirnar eru þó komnar til landsins og tilraunir með framleiðslu og átöppun hafnar.
Nánar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.