Telur dóminn ekki hafa áhrif á viðræður

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað niðurstaðan sem við vorum að vonast eftir og fengum þar með okkar afstöðu staðfesta,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, um að verkföll kennara í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum séu ólögmæt.

Samband íslenskra sveitarfélaga stefndi Kennarasambandinu á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna en í ákvæðinu felst að verkfall skuli ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitanda. 

Verkfall Kennarasambandsins í Snæfellsbæ var ekki dæmt ólögmætt þar sem allir félagsmenn leikskólakennara greiddu atkvæði í því sveitarfélagi um verkfallið. 

Allir kennarar í þeim grunn- og leikskólum, að Snæfellsbæ undanskildum, sem hafa verið í verkfalli snúa aftur til vinnu á morgun og mæta börn einnig til skóla. 

Hafi ekki áhrif á samningaviðræður

Spurð hvort hún haldi að niðurstaðan muni hafa áhrif á framgang samningaviðræðna kveðst hún svo ekki vera. 

„Ég veit ekki af hverju það ætti að gera það. Við erum í fullum rétti að leita réttar okkar eins og Kennarasambandið gerir líka. Það er því bara mikilvægt að fá leyst úr ágreiningsmálum fyrir Félagsdómi. Ég sé ekki af hverju fólk ætti ekki að geta samþykkt það.“

Boðað hefur verið til fundar í Karphúsinu klukkan níu í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert