Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknar í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að hann hafi upplifað viðsnúning í afstöðu Flokks fólksins til viðræðna nýs meirihluta borgarstjórnar um helgina, en hann virði þeirra sjónarmið.
Þá segir hann þennan mögulega meirihluta vera tækifæri fyrir Flokk fólksins til að hafa ýmis áhrif.
„Þarna á föstudagskvöldið var Flokkur fólksins, þar á meðal Helga Þórðardóttir og forysta flokksins, reiðubúin til þess að ganga til formlegra viðræðna. Svo snýst þeim hugur þegar þau tala við grasrótina sína daginn eftir og ég ber virðingu fyrir þeirra sjónarmiði. Það virðist vera byggt á óánægju um framgöngu þingflokks Sjálfstæðismanna núna á síðustu vikum.“
Einar segir mögulegan nýjan meirihluta Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Viðreisnar vera tækifæri fyrir Flokk fólksins til að hafa raunveruleg áhrif, m.a. í húsnæðis- og skipulagsmálum.
„Ég vil bara höfða til Flokks fólksins um að horfa á þau verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í í Reykjavík til að þar sé hugmyndafræðileg samleið í húsnæðismálum og málefnum flugvallarins og fleiri málum. Það myndi styrkja stöðu Flokks fólksins mjög á vettvangi stjórnmálanna að komast í meirihluta í Reykjavík og hafa þar raunveruleg áhrif, m.a. til að hraða húsnæðisuppbyggingu.“
Aðspurður hvort Framsókn geti hugsað sér að mynda vinstri stjórn ásamt Flokki fólksins og öðrum flokkum, segist Einar ekki spenntur en ekki útiloka neitt.
„Núna eru 14-15 mánuðir eftir af þessu kjörtímabili og það er bara gríðarlega mikilvægt að næsti meirihluti, hver sá sem verður í honum, taki ákvarðanir fyrir Reykvíkinga. Við erum tilbúin að vinna með öllum en það verður að vera skýrt hvað á að gera.“
Einar segir að ef svo kæmi til gæti Framsókn hugsað sér að vera í minnihluta og berjast þannig fyrir hagsmunum þeirra sem kusu Framsókn í síðustu borgarstjórnarkosningum, heldur en að vera í meirihluta sem nær ekki að gera það.
Spurður hver næstu skref séu hjá Framsókn segir Einar: „Samtölin bara halda áfram og mér heyrist nú að allir séu að tala við alla.“