Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður formanns Miðflokksins, segir að Inga Sæland hafi látið Kristrúnu Frostadóttur beygja sig þegar kom að málefnum borgarstjórnarflokks Flokks fólksins.
Þetta kemur fram í aukaþætti Spursmála á mbl.is sem efnt var til í tilefni þess að meirihlutinn í borgarstjórn sprakk með hvelli á föstudagskvöld.
Svo virðist sem Flokkur fólksins hafi verið spenntur fyrir meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, allt þar til að Kristrún Frostadóttir blandaði sér í málin og kallaði meðal annars forystufólk úr borgarstjórn á sinn fund í stjórnarráðinu á laugardag.
Orðaskiptin um þessi sinnaskipti má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
„Það sem er athyglisvert er það að Inga Sæland láti snúa sig niður. Ég hefði haldið að hún væri sterkari leiðtogi heldur en að láta gera það. Því það hefði líka verið sterkt fyrir hana eins og í pólitík almennt ef flokkur fólksins hefði getað útskýrt að hann er ekki vinstri flokkur eða hægri flokkur. Hann getur myndað meirihluta í báðar áttir.“
En er endilega verið að snúa hana niður. Við vitum hvernig Inga er. Hún er bráðlát og hún hugsar hratt og hún er alveg reiðubúin að skipta um skoðun. Við þekkjum það með bókun 35 og borgarlínuna og hvað það allt heitir. Getur ekki verið að hún hafi bara vaknað einn daginn og hugsað, þeir eru búnir að gera mér lífið leitt eftir að ég komin í ríkisstjórnina, nú ætla ég að hefna mín?
„Það getur vel verið,“ segir Björn Ingi.
Er þetta ekki bara hefndaraðgerð?
„Það segir þá bara allt um það að forsætisráðherra er að fara að halda stefnuræðu sína í kvöld, vonum seinna og að það sé búið að hrikta þannig í ríkisstjórninni að hún hafi verið tæp um helgina, áður en forsætisráðherrann náði einu sinni að halda stefnuræðu sína.“
Heldur þú að stjórnin sé búin að vera tæp?
„Já, það held ég. Það sé ekki spurning?“
„Hvernig þá, ég er forvitinn að vita það,“ spyr þá Gísli Freyr.
„Ég held að Samfylkingin hafi gert Ingu Sæland það ljóst að ríkisstjórnin sé búin að vera í vörn undanfarnar vikur vegna málefnum tengdum Flokks fólksins og einstökum fulltrúum. Fjármálaráðherrann er búinn að vera með þá heitu kartöflu að þurfa að ákveða nánast hvort flokkurinn getur lifað eða ekki. Og þakkirnar séu það að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borginni,“ útskýrir Björn Ingi.
Og henda Samfylkingunni út.
„Já,“ bregst Björn Ingi við.
„Það er auðvitað mjög skrítið ef borgarmálin eiga að ganga út á það hverjir geta ekki unnið saman. Það er allt kapp lagt á það, við sáum það um helgina af ummælum einstakra borgarfulltrúa hverjum þeir ætli ekki að vinna með og hversu mikið bríarí það hafi verði hjá Einari Þorsteinssyni að slíta þessum meirihluta, hér hafi allt verið í himnalagi, sem það var auðvitað ekki og allir vissu. Og einhvern veginn snúast umræðurnar um það hverjir geta ekki unnið saman heldur en þeir sem geti unnið saman. Það verður náttúrulega ekki kosið fyrr en á næsta ári, það verður að mynda meirihluta,“ segir Gísli Freyr.
Viðtalið við Björn Inga og Gísla Frey má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan: