Börn þora ekki í skólann

„Börn eru lamin í frímínútum. Það er ekkert eðlilegt við …
„Börn eru lamin í frímínútum. Það er ekkert eðlilegt við það að það séu búnar að vera nokkrar hópaárásir í þessum árgangi,“ segir faðir stúlku í árganginum. mbl.is/Karítas

Börn í einum árgangi á miðstigi í Breiðholtsskóla hafa í nokkur ár verið beitt einelti og ofbeldi af hópi samnemenda sinna. Ofbeldið hefur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Lítill vinnufriður hefur verið í árganginum og hegðun hópsins haft mikil áhrif á nám barnanna.

Dæmi eru um að börn þori ekki í skólann. Foreldrar sem Morgunblaðið ræddi við hafa þungar áhyggjur af ástandinu í skólanum. Tveir þeirra hafa um nokkurra ára skeið reynt að vekja athygli borgarinnar og menntayfirvalda í landinu á vandamálinu, án sjáanlegs árangurs að þeirra mati.

„Börn eru lamin í frímínútum. Það er ekkert eðlilegt við það að það séu búnar að vera nokkrar hópaárásir í þessum árgangi,“ segir faðir stúlku í árganginum.

Biðlistar til trafala

Aðstoðarskólastjóri segir stjórnendur hafa tekið í taumana og að málið sé á réttri leið. Hann segir úrræði standa skólum í Reykjavík til boða en að langir biðlistar séu þó þar til trafala. Æskilegt væri ef sérskólar gætu tekið við fleiri nemendum, eða að fleiri slíkir skólar væru til staðar.

„Þá hefur mörgum dottið í hug eitthvað sem við gætum kallað hegðunarver, kannski í borgarhlutanum, eins og hjá okkur í Breiðholtinu, þar sem nemendur gætu farið í einhvern tíma og komið svo til baka í heimaskólann sinn. Það er auðvitað draumur margra að hafa það,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið í dag. Viðurkennir hann að börnin hafi þurft að glíma við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu samnemenda sinna.

Kannast ekki við langvinnan vanda

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar kveðst ekki kannast við langvarandi eineltis- og ofbeldisvanda í skólanum, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tekur fram að sviðið hafi „skýra verkferla þegar upp koma mál er varða einelti og/eða ofbeldi milli barna“.

Í þessu tilfelli hafi margt verið gert til að greiða úr vanda í nemendahópi og til að tryggja vinnufrið, „en eins og gefur að skilja er oft um flókin mál að ræða“.

Magnús D. Norðdahl borgarfulltrúi Pírata ritar grein í Morgunblaðið í dag, ásamt Halldóru Dýrleif Gunnarsdóttur, sérfræðingi á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar. Þar segja þau borgina hafa sett á fót sérstakt ráð sem sinni mannréttindum og málaflokki ofbeldisvarna, sem undirstriki vilja borgaryfirvalda til að vinna gegn ofbeldi og styðja við brotaþola. Einnig er tekið fram að borgin sé eina sveitarfélagið með svokallaða virka aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og að sérstök áhersla sé lögð á ofbeldi gegn börnum.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, þar sem meðal annars er rætt við foreldra fjögurra barna í árganginum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert