Lítið notuð eign HÍ til sölu á 465 milljónir

Eignin er á besta stað í miðborginni og er 406 …
Eignin er á besta stað í miðborginni og er 406 fermetrar. Ljósmynd/FSRE

Sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála HÍ segir 406 fermetra eign við Suðurgötu í eigu Háskóla Íslands hafa verið lítið notaða undanfarin ár. Ríkið geti nú loks selt hana.

„Það hefur ósköp lítið verið notað á undanförnum árum,“ segir Kristinn Jóhannesson sviðsstjóri spurður hvað húsið hafi verið notað undir síðustu ár.

Á lóðinni standa tvö hús, annars vegar nýi Skólabær, steinsteypt og fallegt einbýlishús hannað af Guðjóni Samúelssyni og Hjálmari Sveinssyni árið 1928, og gamli Skólabær, bárujárnsklætt timburhús byggt af Valda Valdasyni árið 1867.

Gamli Skólabær var friðaður árið 2012.

Gamli Skólabær var eitt af fyrstu húsunum sem voru reist …
Gamli Skólabær var eitt af fyrstu húsunum sem voru reist til að hýsa almenna skólastarfsemi í borginni og er með eldri húsum í Reykjavík. Ljósmynd/FSRE

Mest notað í veislur og viðburði HÍ

Gamli Skólabær var eitt af fyrstu húsunum sem voru reist til að hýsa almenna skólastarfsemi í borginni og er eitt af eldri húsum Reykjavíkur og hefur mikið sögulegt gildi, bæði vegna aldurs síns og hlutverks í menntasögu borgarinnar.

Hjónin Jón E. Ólafsson hæstaréttarlögmaður og Margrét Jónsdóttir, dóttir síðustu ábúenda í gamla Skólabæ, gáfu Háskóla Íslands húseign sína árið 1972 og hefur eignin verið í eigu skólans allar götur síðan.

Nýja Skólabæ var breytt í einbýlishús árið 2006 og varð sendiherrabústaður kanadíska sendiherrans.

Eru þó liðin nokkur ár frá því að kanadíska sendiráðið sleit leigusamningnum og hefur enginn tekið húsið á leigu síðan. Segir Kristinn húsið lítið hafa verið notað síðan nema undir einstaka veislur, viðburði og annað tilfallandi á vegum háskólans.

Var óheimilt að selja eignina

Spurður hvers vegna 405 fermetra eign í eigu ríkisins, með ásett verð upp á 465 milljónir króna, hafi ekki verið sett á sölu fyrr segir Kristinn kvöð hafa hvílt á eigninni sem hafi gert háskólanum óheimilt að selja eignina.

„Húsið var gefið háskólanum til ævarandi eignar,“ segir Kristinn.

Málið hafi þurft að taka fyrir á Alþingi til að aflétta kvöðinni áður en hægt var að hefja söluferli á eigninni.

„Nú þekki ég ekki alveg lögin en það er nú kannski ótækt að fólk geti sett kvaðir á ríkisstofnun. Það er orðinn dálítill bjarnargreiði í dag, en kannski ekki á sínum tíma.“

Skilst honum að til standi að söluandvirði hússins renni í styrkjasjóð á vegum Háskóla Íslands sem verði úthlutað úr. 

Eignina má skoða betur á fasteignavef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert