„Mikil seigla og æðruleysi í fólki“

Þakplötur fuku af þessu húsi á Stöðvarfirði í ofsaveðrinu á …
Þakplötur fuku af þessu húsi á Stöðvarfirði í ofsaveðrinu á Stöðvarfirði. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson

Jón Björn Hákonarson, verkefnastjóri almannavarna á Austurlandi og forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, segir að alla helgina hafi staðið yfir hreinsunarstarf í Stöðvarfirði eftir ofsaveðrið sem gekk yfir bæinn á fimmtudaginn.

„Hreinsunarstarfið gekk vel en það er alveg ljóst að það eru miklar skemmdir mjög víða í bænum sem koma betur í ljós á næstu dögum. Um er að ræða umtalsvert eignatjón sem hleypur á tugum milljónum króna við fyrstu sýn,“ segir Jón Björn.

Jón Björn segir að ráðgjafar fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar ásamt fulltrúa Rauða krossins hafi rætt við íbúa Stöðvarfjarðar um helgina en fólki var boðið að ræða við þá.

Illviðrið sem gekk yfir Stöðvarfjörð er það versta í manna …
Illviðrið sem gekk yfir Stöðvarfjörð er það versta í manna minnum. Ljósmynd/Garðar Harðar Vestmann

„Fólk er eftir sig og er í ákveðnu áfalli en það er samt ótrúlegt að sjá hversu mikil seigla og æðruleysi er í fólki. Það tekur á fyrir margt af þessu fólki sem lenti í mesta tjóninu varðandi tryggingarmálin sem það hefur áhyggjur af,“ segir hann.

Hann segir að elstu menn á Stöðvarfirði muni ekki eftir svona veðurofsa og hversu lengi hann stóð yfir.

„Þetta ofsaveður með roki og rigningu stóð yfir í tæpan sólarhring og Stöðvarfjörður fór langverst út úr þessu veðri. Þá urðu miklar skemmdir á íbúðarhúsi og fjárhúsum í Vattarnesi og eins urðu skemmdir í Breiðdal,“ segir Jón Björn, sem hvetur íbúa til að tilkynna allt tjón til síns tryggingarfélags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert