Ólöf Tara Harðardóttir baráttukona var jarðsungin í dag.
Útför Ólafar fór fram frá Grafarvogskirkju og þar fyrir utan stóð fjöldi fólks heiðursvörð þegar kistan var borin út að lokinni athöfninni.
Ólöf Tara var kraftmikil í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og kom að stofnun tveggja samtaka, Öfga og Vitundar, sem barist hafa ötullega fyrir breytingum í þágu þolenda ofbeldis.
Fjölskylda og vinir Ólafar fara fögrum orðum um hana í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag.
„Ólöf Tara skildi eftir sig stór spor og minning hennar mun lifa í óeigingjörnu og mikilvægu baráttunni hennar. Drifkraftur Ólafar, kjarkur og seigla voru aðdáunarverð. Hláturinn og fallega brosið sem lýsti allt upp,“ sögðu baráttusystur Ólafar úr Öfgum.
„Hún stóð í eldinum, tók ágjöf en barðist áfram til síðasta dags,“ sagði Drífa Snædal fyrir hönd Stígamóta. „Eldurinn sem logaði innra með Ólöfu Töru má ekki slokkna og það er okkar ábyrgð að halda honum lifandi.“
„Ein manneskja breytir ekki samfélagi. En mikið komst Ólöf Tara nálægt því. Ekki af því að hún hafði haft vald eða verið í stöðu til að breyta, heldur af því að hún lagði hjarta sitt og sál í að standa með konum,“ sögðu Hildur Lillendahl Viggósdóttir og Sóley Tómasdóttir, vinkonur Ólafar.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.