Fjöldi kennara er samankominn fyrir utan hús Alþingis við Austurvöll, þar sem stefnuræða forsætisráðherra og andsvör hennar eru flutt í kvöld.
Efndu þeir þar til samstöðufundar vegna yfirstandandi kjaradeilna.
Mikil læti eru fyrir utan húsið og hafa þau ekki farið framhjá neinum þingmanni enda heyrast þau vel inni í þingsal.
„Það má segja í stuttu máli að það hafi gengið mjög illa og þessar festur sem við höfum verið í hafa ekkert losnað,“ sagði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari um gang kjaraviðræðna kennara í samtali við mbl.is síðdegis.
Hann telur að úrskurður Félagsdóms í gær, um að verkföll kennara í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum væru ólögmæt, hafi haft neikvæð áhrif á viðræðurnar. Alvarlegt vantraust ríki á milli aðila.