Prjónaði sokka á þann sem myrti hana

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Al­freð Erl­ing Þórðar­son, 45 ára karl­maður sem ákærður er fyr­ir að verða hjón­um í Nes­kaupstað að bana í ág­úst á síðasta ári, var oft gest­kom­andi hjá hjón­un­um sem hann er sakaður um að hafa orðið að bana.

Fólk ná­komið þeim Björg­vini Ólafi Sveins­syni og Rósu G. Bene­dikts­dótt­ur seg­ir Al­freð oft hafa komið til þeirra og fengið að borða. Þá sagði Heiðar Sveins­son, bróðir hins látna, að Rósa hafi meðal ann­ars prjónað sokka á Al­freð.

„Hann hef­ur komið í gegn­um tíðina og fengið að borða. Rósa hef­ur prjónað á hann sokka,“ sagði Heiðar og bætti við: „Hann kom þegar hann var svang­ur.“

Kom fyrst­ur á vett­vang

Heiðar kom að Björg­vini bróður sín­um og Rósu mág­konu sinni þar sem þau lágu í blóði sínu á baðher­berg­is­gólf­inu heima hjá sér.

Al­freð er ákærður fyr­ir að hafa veist að þeim með hamri og slegið ít­rekað í höfuð þeirra. Lét­ust þau af áverk­um sín­um.

Fjölmennt var í dómsal í dag, meðal annars ættingjar hinna …
Fjöl­mennt var í dómsal í dag, meðal ann­ars ætt­ingj­ar hinna látnu. mbl.is/​Karítas

Heiðar var fyrst­ur á vett­vang eft­ir að vin­ur Björg­vins, Val­geir Kristján Guðmunds­son, hafði hringt í hann og beðið hann að at­huga með Björg­vin og Rósu. Heiðar var með lykla að íbúð bróður síns og mág­konu. Hann lýs­ir aðkom­unni svona:

„Svo fór ég þangað, opnaði hurðina og fór inn. Þegar ég var kom­inn inn úr for­stof­unni tók ég eft­ir blóði. Ég labbaði inn í stofu og sá enga hreyf­ingu þar. Svo fór ég inn í bíl­skúr. Svo fór ég hálfa leið upp á loft, kallaði og fékk ekk­ert svar. Svo tók ég eft­ir því að baðið var lokað og opnaði það nátt­úru­lega. Þá sá ég bróður minn liggj­andi á gólf­inu þar og mág­konu mína fyr­ir aft­an hurðina. Og ég bara fraus og var í sjokki.“

Heiðar kveðst þá hafa hringt í Val­geir, hann og son­ur hans, Hafþór Ingi Val­geirs­son, hafi komið snögg­lega og Heiðar fór út úr hús­inu. Þá fór Hafþór inn, en Hafþór er einnig mág­ur hins ákærða, Al­freðs Erl­ings.

Hafþór gaf líka skýrslu fyr­ir héraðsdómi í dag.

„Ég vissi al­veg að þau væru lát­in“

Hafþór bar einnig vitni um það að Al­freð hefði stund­um verið gest­kom­andi hjá Björg­vini og Rósu í gegn­um árin. „Hann komm stund­um við og fékk kaffi á kvöld­in og að borða þegar hann var svang­ur,“ sagði Hafþór.

Þegar Heiðar hafði hringt í Hafþór hringdi hann strax í neyðarlín­una á meðan þeir feðgar komu sér á staðinn. Þegar hann kom á staðinn fór hann inn í húsið.

Full­trúi neyðarlín­unn­ar bað Hafþór um að taka lífs­mörk á hjón­un­um og þegar hann fann ekki lífs­mörk á Björg­vini sagði full­trú­inn hon­um að hann þyrfti ekki að taka lífs­mörk á Rósu. Ljóst væri að þau væru ekki á lífi.

„Ég vissi al­veg að þau væru lát­in áður en ég tók lífs­mörk,“ sagði Hafþór.

Þá sendi full­trúi neyðarlín­unn­ar skila­boð í síma Hafþórs og var hann tengd­ur inn í myndsím­tal viðlög­regl­unaa. Þannig gat hann sýnt lög­regl­unni vett­vang­inn. „Þá biður hann mig um að fara út og fara ekki aft­ur inn,“ sagði Hafþór.

Hafþór lýs­ir aðkom­unni að Strand­götu svona:

„Þegar ég kem inn í for­stofu, ein­hverra hluta vegna, fer ég úr skón­um, af göml­um vana. Þegar ég er að fara úr skón­um, þá sé ég að það er allt í blóði og þegar ég kem inn á baðher­bergi sé ég að það er allt í blóði þar. Ég hleyp aft­ur fram til að fara í skóna og á meðan ég er með neyðarlín­una í sím­an­um. Þegar ég kem aft­ur inn á baðið þá sé ég Rósu, ég hafði ekki séð hana áður.“

Grunaði strax Al­freð

Vitni sem áður hafa gefið skýrslu fyr­ir héraðsdómi í dag segja að strax á vett­vangi hafi verið um­tal um að Al­freð hafi veist að hjón­un­um. Aðspurður seg­ir Hafþór að hann hafi strax grunað að Al­freð hafi myrt Björg­vin og Rósu.

Hann hafði séð Al­freð kvöldið áður og séð að hann gekk í átt að heim­ili Björg­vins og Rósu.

Hafþór kveðst ekki hafa verið í mikl­um sam­skipt­um við mág sinn Al­freð. Hann hafi heyrt af geðræn­um veik­ind­um Al­freðs í gegn­um tengda­fjöl­skyld­una og vissi hversu mikið hon­um hafði hrakað mánuðina og árin áður en morðin voru fram­in.

„Ég vissi hversu geðveik­ur hann var orðinn,“ sagði Hafþór spurður um hvað hann vissi um and­legt ástand Al­freðs í ág­úst á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert