Prjónaði sokka á þann sem myrti hana

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Alfreð Erling Þórðarson, 45 ára karlmaður sem ákærður er fyrir að verða hjónum í Neskaupstað að bana í ágúst á síðasta ári, var oft gestkomandi hjá hjónunum sem hann er sakaður um að hafa orðið að bana.

Fólk nákomið þeim Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur segir Alfreð oft hafa komið til þeirra og fengið að borða. Þá sagði Heiðar Sveinsson, bróðir hins látna, að Rósa hafi meðal annars prjónað sokka á Alfreð.

„Hann hefur komið í gegnum tíðina og fengið að borða. Rósa hefur prjónað á hann sokka,“ sagði Heiðar og bætti við: „Hann kom þegar hann var svangur.“

Kom fyrstur á vettvang

Heiðar kom að Björgvini bróður sínum og Rósu mágkonu sinni þar sem þau lágu í blóði sínu á baðherbergisgólfinu heima hjá sér.

Alfreð er ákærður fyrir að hafa veist að þeim með hamri og slegið ítrekað í höfuð þeirra. Létust þau af áverkum sínum.

Fjölmennt var í dómsal í dag, meðal annars ættingjar hinna …
Fjölmennt var í dómsal í dag, meðal annars ættingjar hinna látnu. mbl.is/Karítas

Heiðar var fyrstur á vettvang eftir að vinur Björgvins, Valgeir Kristján Guðmundsson, hafði hringt í hann og beðið hann að athuga með Björgvin og Rósu. Heiðar var með lykla að íbúð bróður síns og mágkonu. Hann lýsir aðkomunni svona:

„Svo fór ég þangað, opnaði hurðina og fór inn. Þegar ég var kominn inn úr forstofunni tók ég eftir blóði. Ég labbaði inn í stofu og sá enga hreyfingu þar. Svo fór ég inn í bílskúr. Svo fór ég hálfa leið upp á loft, kallaði og fékk ekkert svar. Svo tók ég eftir því að baðið var lokað og opnaði það náttúrulega. Þá sá ég bróður minn liggjandi á gólfinu þar og mágkonu mína fyrir aftan hurðina. Og ég bara fraus og var í sjokki.“

Heiðar kveðst þá hafa hringt í Valgeir, hann og sonur hans, Hafþór Ingi Valgeirsson, hafi komið snögglega og Heiðar fór út úr húsinu. Þá fór Hafþór inn, en Hafþór er einnig mágur hins ákærða, Alfreðs Erlings.

Hafþór gaf líka skýrslu fyrir héraðsdómi í dag.

„Ég vissi alveg að þau væru látin“

Hafþór bar einnig vitni um það að Alfreð hefði stundum verið gestkomandi hjá Björgvini og Rósu í gegnum árin. „Hann komm stundum við og fékk kaffi á kvöldin og að borða þegar hann var svangur,“ sagði Hafþór.

Þegar Heiðar hafði hringt í Hafþór hringdi hann strax í neyðarlínuna á meðan þeir feðgar komu sér á staðinn. Þegar hann kom á staðinn fór hann inn í húsið.

Fulltrúi neyðarlínunnar bað Hafþór um að taka lífsmörk á hjónunum og þegar hann fann ekki lífsmörk á Björgvini sagði fulltrúinn honum að hann þyrfti ekki að taka lífsmörk á Rósu. Ljóst væri að þau væru ekki á lífi.

„Ég vissi alveg að þau væru látin áður en ég tók lífsmörk,“ sagði Hafþór.

Þá sendi fulltrúi neyðarlínunnar skilaboð í síma Hafþórs og var hann tengdur inn í myndsímtal viðlögreglunaa. Þannig gat hann sýnt lögreglunni vettvanginn. „Þá biður hann mig um að fara út og fara ekki aftur inn,“ sagði Hafþór.

Hafþór lýsir aðkomunni að Strandgötu svona:

„Þegar ég kem inn í forstofu, einhverra hluta vegna, fer ég úr skónum, af gömlum vana. Þegar ég er að fara úr skónum, þá sé ég að það er allt í blóði og þegar ég kem inn á baðherbergi sé ég að það er allt í blóði þar. Ég hleyp aftur fram til að fara í skóna og á meðan ég er með neyðarlínuna í símanum. Þegar ég kem aftur inn á baðið þá sé ég Rósu, ég hafði ekki séð hana áður.“

Grunaði strax Alfreð

Vitni sem áður hafa gefið skýrslu fyrir héraðsdómi í dag segja að strax á vettvangi hafi verið umtal um að Alfreð hafi veist að hjónunum. Aðspurður segir Hafþór að hann hafi strax grunað að Alfreð hafi myrt Björgvin og Rósu.

Hann hafði séð Alfreð kvöldið áður og séð að hann gekk í átt að heimili Björgvins og Rósu.

Hafþór kveðst ekki hafa verið í miklum samskiptum við mág sinn Alfreð. Hann hafi heyrt af geðrænum veikindum Alfreðs í gegnum tengdafjölskylduna og vissi hversu mikið honum hafði hrakað mánuðina og árin áður en morðin voru framin.

„Ég vissi hversu geðveikur hann var orðinn,“ sagði Hafþór spurður um hvað hann vissi um andlegt ástand Alfreðs í ágúst á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert