„Það má segja í stuttu máli að það hafi gengið mjög illa og þessar festur sem við höfum verið í hafa ekkert losnað,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari um gang mála á fundi í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga í dag.
Hann telur að úrskurður Félagsdóms í gær, um að verkföll kennara í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum væru ólögmæt, hafi haft neikvæð áhrif á viðræðurnar. Alvarlegt vantraust ríki á milli aðila.
Fundinum lauk rétt fyrir klukkan fjögur í dag, án nokkurs árangurs, og ekki hefur verið boðað til nýs fundar.
Fyrir helgi reifaði Ástráður ákveðnar hugmyndir um hvernig mætti leysa deiluna og ætluðu samninganefndirnar að gefa sér helgina til að fara yfir þær.
„Þær hugmyndir virtust ekki höfða mikið til manna,“ segir hann.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar hjá samninganefndum leik- og grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga þá verður fundur hjá samninganefndum ríkisins og Félags framhaldsskólakennara á miðvikudag.
„Þar eru samtöl í gangi um tiltekin atriði sem eru ekki dauð og það á að reyna að leiða þau til lykta. En það er ekki þar með sagt að þau dugi til að klára gerð kjarasamnings heldur gætu hugsanlega liðkað fyrir honum,“ segir Ástráður.
Það flæki málin að deilurnar hangi saman að hluta til en ekki að öllu leyti.
„En staðan er bara mjög döpur, það verður bara að segjast eins og er,“ ítrekar hann.
Heldurðu að niðurstaða Félagsdóms í gær hafi haft neikvæð áhrif?
„Já, það er bara þannig að öll svona átök, hvort sem það er fyrir dómstólum eða hvernig það er, það hefur alltaf áhrif á andrúmsloftið í svona viðræðunum. Það var svo sem alveg viðbúið að menn þyrftu eitthvað að jafna sig á þessu.“
Þannig að þessi dómur gæti mögulega hafa komið á versta tíma í gær?
„Ég veit ekkert um það, hvaða tími er góður eða hvaða tími er vondur.“
Spurður hvort hugmyndir hans að lausnum séu uppurnar í bili, segir Ástráður:
„Ég ætla ekki að fullyrða með það, en það er ekki alveg að sjá í land akkúrat núna.“
Hann segir samtöl vissulega halda áfram á milli deiluaðila og reynt sé að leita einhverra lausna og leiða.
„En það er gagnkvæmt og alvarlegt vantraust á milli aðila sem hefur mjög neikvæð áhrif á stöðu samningaviðræðna.“