Engar almenningssamgöngur eru lengur í boði milli Borgarfjarðar eystra og Egilsstaða eftir að Vegagerðin vildi ekki endurnýja samning um ferðir á milli staðanna eftir að fyrrnefnda sveitarfélagið sameinaðist Múlaþingi árið 2022.
Þjónustan var felld niður um áramót og segir Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar, rökstuðning Vegagerðarinnar fyrir ákvörðuninni vera að um sé að ræða innanbæjarakstur eftir sameininguna. Auk þess taldi Vegagerðin ekki nógu marga hafa nýtt sér þjónustuna.
Eyþór segir þessi rök ekki standast skoðun þar sem drjúgur hluti íbúa á Borgarfirði eystra hafi nýtt sér þjónustuna, sérstaklega þeir sem eru af erlendu bergi brotnir.
„Ef sama hlutfall væri að nota strætisvagna í Reykjavík þá væri Strætó ekki í neinum rekstrarvanda,“ segir hann.
Þá segir hann að ótækt sé að kalla leið sem er 70 kílómetrar og yfir fjallveg innanbæjarakstur en þörf er á að keyra yfir Vatnsskarð eystra til að komast yfir til Egilsstaða frá Borgarfirði eystra.
Um er að ræða almenningssamgöngur sem einn aðili á Borgarfirði eystra hafði séð um og samnýtti hann ferðina póstþjónustu, sem hann sér einnig um. Bendir Eyþór á að þrátt fyrir að Vegagerðin hafi fellt samninginn úr gildi sé ferðin enn farin af þessum sama aðila, enda sjái hann enn um póstþjónustuna.
Bókað var um málið í heimastjórn Borgarfjarðar í seinustu viku þar sem skorað var á Vegagerðina að tryggja að gerður verði samningur um almenningssamgöngur milli Borgarfjarðar og Egilsstaða.
Spurður um næstu skref í málinu kveðst Eyþór binda vonir við að nýr atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, taki málið í sínar hendur og bendir hann á að málið samrýmist vel nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.