Blóð þvegið af hamrinum

Frá upphafi aðalmeðferðar í gær. Saksóknari í málinu er Arnþrúður …
Frá upphafi aðalmeðferðar í gær. Saksóknari í málinu er Arnþrúður Þórarinsdóttir. mbl.is/Karítas

Lífsýni úr Alfreð Erling Þórðarsyni, sem ákærður er fyrir að hafa orðið hjónum að bana í Neskaupstað í ágúst í fyrra, fundust á hinum látnu og á vettvangi. Þá fundust lífsýni úr hjónunum á fötum Alfreðs sem og hamrinum sem fannst í fórum hans við handtöku. 

Alfreð er grunaður um að hafa orðið Björgvini Ólafi Sveinssyni og Rósu G. Benediktsdóttur að bana með ofbeldisfullum hætti að kvöldi 21. ágúst á síðasta ári. Er hann grunaður um að hafa beitt hamri til verksins. 

Í skýrslu blóðferlafræðings sem rannsakaði vettvanginn í Neskaupstað kom fram að hamarinn sem fannst í bíl hjónanna, sem Alfreð keyrði til Reykjavíkur, hafði verið þveginn á einhverjum tímapunkti. Þó fannst enn blóð á honum við nánari rannsókn. 

Aðalmeðferð málsins gegn Alfreð hófst í gær og lýkur með munnlegum málflutningi sækjanda, verjanda og réttargæslumanns á morgun. 

Klaufhamri beitt gegn þeim

Auk blóðferlafræðingsins gáfu réttarmeinafræðingar skýrslu fyrir dómi í dag.

Pétur Guðmann Guðmannsson og Andri Traustason eru báðir réttarmeinafræðingar. Pétur kom á vettvang í Neskaupstað og framkvæmdi krufningu á Björgvini og Rósu. Andri var viðstaddur krufninguna og gerðu þeir greinargerðina saman. 

Gerðu þeir grein fyrir helstu áverkum og líklegum dánarorsökum hjónanna hvor í sínu lagi fyrir dómi í dag. 

Í máli þeirra kom fram að lík bæði Björgvins og Rósu hafi verið mjög illa farin. Þeim hafi verið veitt ítrekuð höfuðhögg með áhaldi og passa áverkarnir við að klaufhamri hafi verið beitt gegn þeim. Áverkarnir voru mestir á höfði beggja. 

Dánarorsök þeirra beggja eru alvarlegir höfuðáverkar. 

Bæði voru þau með áverka á höndum sem samræmast varnaráverkum, eins og fólk fær þegar það ber fyrir sig hendurnar. 

Þá sögðu þeir að erfitt væri að meta hversu mörg högg þau hafi fengið því áverkarnir væru svo miklir. Nefndi Andri að Rósa hafi hlotið að minnsta kosti fimmtán högg í höfuðið með áhaldinu. 

Hvernig ákverkarnir komu til sagði Pétur Guðmann skýrt að þetta væri manndráp, hann gæti sagt það með eins mikilli fullvissu og réttarmeinafræðingar geta leyft sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert