Dularfullt skjáskot í síma látnu

Frá upphafi aðalmeðferðar við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær.
Frá upphafi aðalmeðferðar við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær. mbl.is/Karítas

Skjáskot var tekið á síma Rósu G. Benediktsdóttur, sem fannst látin ásamt eiginmanni sínum Björgvini Ólafi Sveinssyni á heimili sínu í ágúst á síðasta ári, tveimur mínútum eftir að lögreglan telur að grunaður banamaður þeirra hafi yfirgefið vettvanginn. 

Litlar skýringar eru á því hvernig skjáskotið er komið til, en á skjámyndinni má skjá stikuna til þess að hækka og lækka hljóð í símanum, og var glugginn til að velja símanúmer til að hringja í opinn. 

Þetta kom fram við skýrslutöku í aðalmeðferð í máli gegn Alfreð Erling Þórðarsyni sem ákærður er fyrir að hafa orðið hjónunum að bana.

Passar við tímasetningar úr eftirlitsmyndavélum

Skýrsluna veitti rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Austurlandi, en hann stýrði rannsókninni. 

Hann segir tímasetninguna koma heim og saman við tímasetningar úr eftirlitsmyndavélum sem notaðar voru til þess að rekja ferðir Alfreðs eftir að hann er talinn hafa yfirgefið heimili hjónanna í Neskaupstað 21. ágúst á síðasta ári. 

Hjónin fundust daginn eftir, 22. ágúst, en Alfreð var handtekinn á bíl hjónanna á Snorrabraut í Reykjavík. Við aðalmeðferð málsins hefur þegar komið fram að Alfreð var haldinn alvarlegum ranghugmyndum þegar hann var handtekinn og talaði mikið um Guð, djöfulinn og Jesú Krist.

Rannsóknarlögreglumaðurinn sagði að miðað við hvernig síma Rósa átti, og hvernig skjáskot var tekið á símanum, sé mögulegt að tveir hafi tekist á um símann þegar skjáskotið var tekið. En eins og fram hefur komið er ekki hægt að skýra að fullu hvernig skjáskotið kom til.

Gaf nákvæma lýsingu á vettvangi og ástandi hjónanna

Téður rannsóknarlögreglumaður tók skýrslur af Alfreð eftir að hann var handtekinn. Hann segir Alfreð hafa verið mjög rólegan og yfirvegaðan þegar lögreglan ræddi við hann. Þó hafi hann verið haldinn ákveðnum ranghugmyndum.

Gat hann lýst vettvangi á heimili hjónanna nákvæmlega og í hvaða stöðu þau lágu þegar hann yfirgaf hús þeirra. Kvaðst hann þó ekki hafa orðið þeim að bana.

Segir hann að Alfreð hafi ekki sýnt tilfinningaleg viðbrögð við andláti hjónanna við skýrslutökuna.

Rannsóknarlögreglumaðurinn sagði að við skýrslutökuna hafi Alfreð verið tíðrætt um Guð og djöfulinn. Um ferðina til Reykjavíkur sagði hann að hann væri á leið að Hallgrímskirkju til að kveikja í krossi fyrir utan hana. Sagði hann Alfreð hafa talað um að það væri til að minnast þeirra, eða eitthvað í þá áttina.

Rannsóknin leiddi í ljós að Alfreð stoppaði á Selfossi til að kaupa bensínbrúsa og bensín. Þá stoppaði hann einnig á Olís í Norðlingaholti til að kaupa dísilolíu, sem hann dældi ofan í bensínið. Má leiða að því líkum að hann hafi ætlað að nota það til að kveikja í krossi fyrir utan kirkjuna.

Almennt rólegur og yfirvegaður

Segir rannsóknarlögreglumaðurinn að Alfreð hafi vel getað gert grein fyrir ferðum sínum og passa lýsingar hans við rannsókn lögreglu sem byggði meðal annars á gögnum úr eftirlitsmyndavélum í vegasjoppum.

Við skýrslutöku er Alfreð sagður hafa verið almennt rólegur nema þegar einn aðstandandi hjónanna var nefndur á nafn, og eitt atvik tengt honum. Það er nafn sonar Björgvins og Rósu og kynferðisbrot sem bæði sonurinn og Alfreð voru sakaðir um að vera gerendur að.

Þegar nafn sonarins barst í tal segir lögreglumaðurinn að Alfreð hafi skipt skapi og verið reiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert