E. coli fannst í svínasultunni: Ekkert starfsleyfi

...
... Morgunblaðið/Eggert

Eftir rannsóknir á saursýnum frá smituðum gestum og sýnum úr matvælum virðist sem orsök veikinda þorrablótsgesta, sem vöktu athygli fyrir rúmri viku, sé svokölluð EPEC-tegund af bakteríunni E.coli og/eða bakterían Bacillus cereus.

Þetta er niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem segir einnig að aðstaða til handþvotta í eldhúsi Veisluþjónustu Suðurlands hafi verið ófullnægjandi.

Í tilkynningu frá eftirlitinu segir að farið hafi verið yfir verkferla með veisluþjónustunni og að fylgst verði með því hvort bætt verði úr.

Sýni tekin úr afgöngum

Reynt var að greina orsök veikindanna með rannsóknum á saursýnum frá nokkrum smituðum einstaklingum annars vegar og sýnum úr matvælum hins vegar. Matvælasýni voru tekin úr afgöngum og úr matvælum sem voru enn í órofnum umbúðum frá framleiðanda.

Eftir rannsóknir á ofangreindum sýnum liggur fyrir að um er að ræða ofangreindar bakteríur.

Einnig kom í ljós að starfsemin væri án starfsleyfis og þykir það alvarlegt frávik að mati eftirlitsins.

Haft var eftir Árna Bergþóri Haf­dal Bjarna­syni, eig­anda Veisluþjón­ustu Suður­lands, á vefnum Sunn­lenska.is í gær, að heilbrigðiseftirlitið væri „búið að koma og taka út ferl­ana okk­ar og gerði eng­ar stór­ar at­huga­semd­ir“.

Matvælin stóðu lengi án kælingar

Svínasulta og sviðasulta af hlaðborðunum voru mengaðar af Bacillus cereus-bakteríu og svínasultan var að auki menguð af E. coli.

Þó lítur út fyrir að varan sjálf, sviða- og svínasultan, hafi verið án mengunar.

Matvælin eru viðkvæm fyrir hitabreytingum og benda niðurstöður til þess að matvælin hafi staðið án viðunandi kælingar í langan tíma, sem gefur bakteríunum tíma til að fjölga sér.

Tekið er fram að krosssmit geti orðið á milli matvæla og liggur því ekki ljóst fyrir hvar gerlarnir áttu upptök sín.

Annar stofn E. coli en greindist á leikskóla

E.coli-stofn greindist í þeim saursýnum sem fengust frá gestum til rannsókna en tekið er sérstaklega fram að til eru mismunandi stofnar E. coli-veirunnar og að nú sé um annan stofn að ræða en þann sem greindist í hópsýkingu á leikskóla á síðasta ári.

Þá getur Bacillus cereus-bakterían myndað eitur í matvælunum og sé eitrið innbyrt veldur það einkennum matareitrunar.

Ekki er þó hægt að leita að eitrinu í saursýnum og því ekki alveg ljóst hver orsakavaldurinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert