Vefurinn Saman gegn fordómum, sem hefur það hlutverk að fræða og vekja athygli á fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu, opnaði fyrr í dag.
Vefurinn er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og hefur það að markmiði að stuðla að jákvæðri og fordómalausri samfélagsumræðu.
Er þar boðið upp á fjölbreytta fræðslu og verkfæri sem ætlað er að auka vitund og skilning almennings á málefninu, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Börn sem fullorðnir eru hvattir til að nýta sér vefinn í ljósi samfélagslegrar umræðu um hatursorðræðu og ofbeldi. Fordómar eiga það til að verða að hatursorðræðu og jafnvel ofbeldi.
Leiðbeiningar um hvernig bregðast má við þegar fólk verður vitni að eða verður sjálft fyrir fordómum eða hatursorðræðu má finna á vefnum og ítarlegt fræðsluefni um ólíkar tegundir fordóma og hatursorðræðu.
Þannig er vonin að efla færni fólks til að takast á við fordóma í daglegu lífi.
„Hatursorðræða er særandi og veldur sundrungu og skautun í samfélaginu. Saman gegn fordómum fellur að áherslu ríkisstjórnarinnar á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu. Hatursorðræða er mein sem leggjast þarf á eitt til að uppræta og saman getum við það,“ er haft eftir Ásthildi Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra.