Hægt að reikna út nákvæmlega hvað þarf að fella

Hafist var handa við að fella tré í Öskjuhlíð í …
Hafist var handa við að fella tré í Öskjuhlíð í dag. mbl.is/Karítas

„Það sem er hægt að lesa út úr þessum myndum er kannski umfangið á gróðrinum og hvar eru há tré og annað,“ segir Karl Arnar Arnarson, framkvæmdastjóri Loftmynda hf.

Fyrirtækið deildi í dag myndum frá árinu 2023 á Facebook sem sýna hæðarmælingu trjánna í Öskjuhlíð.

Mjög nákvæmt hæðarlíkan

Í samtali við mbl.is segir Karl að ekki sé um loftmynd að ræða heldur geislamælingu.

„Flugvélin flýgur yfir með græju sem skýtur niður gífurlegu magni af svona geislaskotum og mælir síðan tímann sem það tekur geislann að koma aftur til baka.“

Að sögn Karls er geislunum skotið frá vélinni og verða þykkari og þykkari eftir því sem þeir fara lengra niður.

„Svo endurkastast hann af einhverju sem hann lendir á en hluti af honum heldur áfram. Þannig að hann getur byrjað kannski á trjátoppi og farið síðan niður á grein, svo aðra grein og endað svo niðri á jörðinni.“

Er það svo reiknirit sem getur reiknað hvenær geislarnir lenda á trjám og á jörðu. Því sé hægt að búa til mjög nákvæmt hæðarlíkan.

Setur ekki athugasemd út á fjöldann

Til stendur að fella að minnsta 1.400 tré í Öskjuhlíðinni sökum ógnar við flugöryggi hjá Reykjavíkurflugvelli og var byrjað að fella fyrstu trén í dag.

Karl segir að með færslunni sé ekki verið að gera athugasemd við fjölda þeirra trjáa sem krafist hefur verið að verði felld.

„En með þessum gögnum hins vegar væri hægt, með smá fyrirvara, að reikna þetta út nákvæmlega hvað væri hægt að fella.“

Stefna aðra mælingu í apríl

Hann segir þó vel vera að fjöldi þeirra trjáa sem ákveðið hefur verið að verði felldur sé réttur þar sem hægt sé að fá hæðarmælingu einnig með drónum og nefnir hann að það megi vel vera að það hafi verið gert.

Hann tekur þó fram að það hefði mátt setja fram með skýrari og nákvæmari hætti hve mörg trjá ætti að fella og hvar.

Nefnir Karl að Loftmyndir hf. stefni á að fara í aðra mælingu í apríl á þessu ári þar sem reynt verði að mæla allt það sem standi upp úr jörðu á svæðinu og ætti þá að fást nákvæmari mynd en sem fyrr segir eru myndirnar sem deilt var fyrr í dag frá 2023.

Hægt er að lesa nánar um mælinguna hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert