„Það er óásættanlegt að börn búi við ofbeldi af þessu tagi,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra, spurð út í langvinnan ofbeldisvanda meðal nemenda í sjöunda bekk í Breiðholtsskóla sem Morgunblaðið greindi frá í gær.
Foreldrar nemenda í skólanum höfðu í mörg ár reynt að vekja athygli menntayfirvalda á ofbeldinu í skólanum, þar á meðal skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytinu. Hefur eitt foreldri nú stefnt borginni vegna málsins.
Hvað finnst þér sem ráðherra menntamála að heyra að börn upplifi sig ekki örugg í skólum og að ekki sé gripið almennilega í taumana fyrr en núna?
„Það sýnir náttúrulega mikilvægi þess að auka stuðning við skóla og skólaþjónustu og að tryggja úrræði. Ábyrgðin er hjá sveitarfélögunum en við viljum auka verulega allan stuðning. Ráðuneytið hefur fengið til meðferðar mál sem tengist þessu og skoðar þau en ég get ekki tjáð mig um einstaka mál.“
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, að oft virðist sem það vanti leiðir til að bregðast við og taka á málum sem þessum innan skóla og jafnvel hjá sveitarfélögum líka.
Hún sagði stöðuna mjög alvarlega og að grunnforsenda náms væri að börnum liði vel og upplifðu öryggi.
Hvað getur menntamálaráðuneytið gert þegar svona einstök mál koma upp í grunnskólum, sem eru á forræði sveitarfélaganna?
„Það er það nákvæmlega það sem við þurfum að skoða, hvað getum við gert – eða ég þarf að skoða, sem nýr ráðherra. Ég þarf bara aðeins að kanna hvar mínar heimildir liggja. Þetta er í höndum sveitarfélaga. Mér finnst bara óásættanlegt að börn búi við svona ofbeldi í skólum,“ segir Ásthildur Lóa.