Þrátt fyrir að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hafi kynnt ákvörðun sína í styrkjamálinu síðastliðinn föstudag bendir ekkert til þess að málinu sé lokið. Það virðist ætla að færast inn á Alþingi, sem nú hefur tekið til starfa.
Daði Már greindi fyrir helgi frá þeirri ákvörðun, sem hann studdi aðfengnum lagaálitum, að Flokkur fólksins þyrfti ekki að standa skil á þeim 240 milljónum króna sem flokkurinn fékk ofgreiddar úr ríkissjóði árin 2022, 2023 og 2024. Flokkurinn stóðst ekki lagaskilyrði þeirra framlaga, eins og Morgunblaðið greindi fyrst frá.
Í umræðum um stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í gærkvöld viku þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks báðir að styrkjamálinu og ýmsum afleiðingum þess, og ekki var annað að heyra en að flokkarnir ætluðu að taka málin upp af miklum þunga á vettvangi Alþingis.
Til þess kunna að gefast margvísleg tækifæri, fyrst og fremst á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, en formaður hennar hefur boðað að málið verði tekið fyrir á vettvangi hennar. Að líkindum verða þeir fundir opnir þegar þar að kemur, enda ræðir um fjármál stjórnmálaflokkanna sjálfra.
Fjallað er um styrkjamálið í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag, en þar kemur einnig fram að settar hafa verið fram alvarlegar efasemdir um þýðingu lagaálita fjármálaráðherra.