Telja sig hafa fundið orsök veikindanna

Árni segir fjölmiðla hafa málað neikvæða mynd af verki veisluþjónustunnar.
Árni segir fjölmiðla hafa málað neikvæða mynd af verki veisluþjónustunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veikindi gesta á tveimur þorrablótum á Suðurlandi fyrir rúmri viku stöfuðu líklega af bakteríu sem nefnist bacillus cereus.

Samtals 400 gestir sóttu þorrablót í Grímsnes- og Grafningshreppi og á Þorlákshöfn en þar af tilkynntu 120 um veikindi.

Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, segir í samtali við Sunnlenska.is að bakterían hafi fundist í tveimur sýnum af hlaðborðinu og að hún passi við einkenni veiku gestanna.

Ómögulegt sé þó að staðfesta það, því ekki hafi verið skimað fyrir henni við sýnatökur úr gestum.

Bakterían erfið í meðhöndlun

Haft er eftir Árna að engin leið sé að vita nákvæmlega hvað fór úrskeiðis eða hvernig bakterían komst í vistkerfi þjónustunnar og hvers vegna hún smitaði svona marga.

Bakterían sé einstaklega erfið í meðhöndlun þegar hún kemur upp.

Að sögn Árna lifir bakterían af 120°C hita og sótthreinsun í 85% sjúkrahússpritti. Þegar eitthvað smitast af henni sé nánast ómögulegt að losna við hana. Eina leiðin til að drepa hana sé með pressusuðu eða að sjóða hluti þrisvar sinnum á 100°C hita á þremur sólarhringum.

Almennir fyrirbyggjandi verkferlar dugi því ekki til.

„Það þýðir að alveg sama hversu fullkomnir okkar verkferlar eru, varðandi endurhitun og annað, þá var engin leið til þess að bæta úr ástandinu eftir að sýkingin komst í matvælin eða búnaðinn og á milli hlaðborða. Heilbrigðiseftirlitið er búið að koma og taka út ferlana okkar og gerði engar stórar athugasemdir,“ segir Árni í samtali við miðilinn.

Neikvæð mynd máluð í fjölmiðlum

Að sögn Árna hefur öllum matvælum sem notuð voru verið fargað og bæði eldhús og bíll sótthreinsuð, áhöld og skraut pressusoðin, þvottur þveginn þrisvar á suðu og öllum ráðum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fylgt.

Komist hafi verið að því í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands að ferlar veisluþjónustunnar væru til sóma, en í reynslubankann séu komin hollráð og þættir sem hægt væri að bæta.

Árni segir fjölmiðla hafa málað neikvæða mynd af verki veisluþjónustunnar en samtalið milli þjónustunnar og forráðamanna beggja þorrablótanna hafi verið mjög gott frá upphafi.

Árni segir reynsluna mögulega þá verðmætustu sem hægt er að fá og héðan í frá verði hvergi öruggara að borða en hjá Veisluþjónustu Suðurlands. Það hafi þó verið dýrkeypt reynsla, sem Árni hafi goldið fyrir með mannorði, ógreiddum reikningum og hundruðum gesta í töpuðum veislum eftir umtalið.

Sjá viðtal Sunnlenska.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert