„Þetta var af mannavöldum“

Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst á síðasta ári.
Frá lögregluaðgerðum í Neskaupstað í ágúst á síðasta ári. Ljósmynd/Aðsend

Sérfræðingur á tæknideild lögreglunnar segir það strax hafa verið ljóst að andlát Björgvins Ólafs Sveinssonar og Rósu G. Benediktsdóttur hafi verið af mannavöldum.

Sérfræðingurinn gaf skýrslu við aðalmeðferð í máli Alfreðs Erlings Þórðarsonar sem ákærður er fyrir að hafa orðið hjónunum að bana með því að veitast að þeim með hamri 21. ágúst á síðasta ári.

Rétt er að vara lesendur við lýsingum hér að neðan.

Sérfræðingurinn sá um að greina blóðferla á vettvangi og þannig greina að einhverju leyti hvað hafi átt sér stað er hjónunum var ráðinn bani.

Lýsti hann því hvernig dreifing blóðsins um íbúð hjónanna hafi strax sagt ákveðna sögu. Ljóst hafi verið af slettum og förum í forstofu og á gangi að Björgvin hafi verið standandi þegar honum hafi verið veitt ítrekuð högg. Átökin hafi svo leitt inn á baðherbergi. Björgvin hafi legið í gólfinu þegar honum voru veitt banahöggin.

Blóðslettur í loftinu

Björgvin og Rósa fundust bæði látin á baðherberginu í íbúðinni. Telur sérfræðingurinn að Björgvini hafi verið ráðinn bani á undan Rósu og að hinn ákærði í málinu hafi þvingað líkama hans í óeðlilega stöðu inni á baðherberginu.

Þegar hann hafi verið búinn að ráða Björgvini bana með ítrekuðum höfuðhöggum með klaufhamri hafi hann ráðist að Rósu. Hann hafi veist að henni inni á baðherbergi og slegið hana ítrekað í höfuðið með hamrinum. Rósa hafi verið liggjandi þegar hann sló hana ítrekað með hamrinum.

Hann lýsti því hvernig mjög mikið blóð hafi verið upp með veggjunum og að blóðslettur hafi sést í loftinu. Um áverka Rósu sagði hann:

„Þar sem augað átti að vera var bara gat, eins augljóst og verið gat að þetta var ekki slys, þetta var af mannavöldum.“

Hann bætti við að af vettvanginum að dæma hafi verið ljóst að þeim hafi verið ráðinn bani með ofbeldisfullum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert